
Talsverður áhugi á þyrluflugi yfir gossvæðið
Þessi tvö félög eru þau þeirra sem fljúga yfir svæðið sem hafa íslenskt flugrekstrarleyfi að sögn Þórhildar Elínar Elínardóttir samskiptastjóra Samgöngustofu.
Birgir segir að honum finnist sem nokkuð hafi róast í eftirspurninni eftir að nýja gönguleiðin að gosinu var stikuð en það sé allt önnur upplifun að geta flogið yfir svæðið, lent og stigið frá borði. „Það er ótrúlegt að finna náttúruöflin að verki,“ segir Birgir.
Þyrluþjónustan-Helo rekur að sögn Jóns Þórs eina níu ára Bell 407 GX þyrlu sem sérhönnuð er til útsýnisflugs. Það sama á við um Airbus þyrlur Norðurflugs sem hefur á þremur slíkum að skipa í flota sínum.
Aðeins mega sex loftför vera á flugi yfir svæðinu í senn sem getur orðið til þess að fækka þarf ferðum yfir daginn. „Því miður getur stundum orðið nokkur töf á því að komast á loft,“ segir Birgir og Jón Þór kveður veðrið jafnframt hafa sín áhrif.
„Við þurftum að fresta tveimur ferðum í gær vegna snjókomu og ekki var hægt að fljúga á mánudag vegna veðurs.“
Þeir eru sammála um að gosið hefði ekki geta hafist á betri tíma og að ánægjulegt sé hve fólk nýtur ferðarinnar sem kostar ríflega 44 þúsund hjá báðum félögum. Hvorugur býst við að strangar sóttvarnarreglur setji mikið strik í reikninginn enda sé ítrasta öryggis gætt.