Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sprengiflaugar Norður-Kóreu lentu í Japanshafi

25.03.2021 - 04:53
epa09095132 (FILE) - South Koreans look at a North Korean Scud-B Tactical Ballistic Missile (C) on display at the Korean War Memorial Museum in Seoul, South Korea, 07 March 2019 (reissued 25 March 2021). North Korea has fired at least one ballistic missile into the East Sea on 25 March 2021 according to a statement by the South Korean Defense Ministry.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tveimur flugskeytum var skotið í Japanshaf frá Norður-Kóreu í nótt. Grunur leikur á að þær hafi verið sprengjuflaugar. Tveimur skammdrægum flaugum var skotið tveimur skammdræmum flaugum á sunnudag að sögn suðurkóreska hersins.

Norður-kóresk stjórnvöld hafa lengi verið þekkt fyrir að ögra nágrönnum sínum og Bandaríkjamönnum með flugskeytatilraunum. Fyrsta ár Donalds Trumps í embætti Bandaríkjaforseta var fjölda flugskeyta skotið frá ströndum Norður-Kóreu, og urðu tilraunirnar sífellt umfangsmeiri. Að auki fór fúkyrðaflaumur á milli leiðtoganna Kim Jong-Un og Trumps. Nú er talið að tilraunirnar séu gerðar til þess að hreyfa við stjórn Joe Biden. Samkvæmt tilskipunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er Norður-Kóreu bannað að þróa flugskeyti. 

Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, var ómyrkur í máli þegar hann greindi fjölmiðlum frá tilrauninni í nótt. Hann sagði hana ógna friði og öryggi í Japan og öðrum nágrannaríkjum Norður-Kóreu. Auk þess væru stjórnvöld í Pyongyang að brjóta gegn tilskipunum Sameinuðu þjóðanna. Flugskeytin lentu utan lögsögu Japans í Japanshafi. Þau fóru um 450 kílómetra frá Norður-Kóreu og náðu mest 60 kílómetra hæð, hefur AFP fréttastofan eftir herforingjaráði Suður-Kóreu.