Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mikil hálka á gönguleið að Geldingadölum

Haukur Snorrason ljósmyndari tók syrpu af myndum í birtingu 23. mars yfir eldstöðvunum í Geldingadal. Haukur var um borð í TF KNA og flugmaður Arnar Emilsson. Þeir voru í samflugi með TF YAK, flugmaður hennar var Snorri B Jónsson.
,,Myndir sem ég tók í morgun úr flugvél í birtngu yfir eldstöðvunum. í lok frétta t.d. Þetta var ansi flott og annar flaug oft við hliðina á mér. Leyfa folki að njóta. Kostar ekkert."
 Mynd: Haukur Snorrason
Mikil hálka er nú á gönguleiðinni að gosstöðvunum í Geldingadölum og á fólk talsvert erfitt með að fóta sig. Sérstaklega er hált í einni brekku á leiðinni, og þeir sem eru á leið til eða frá stöðvunum því beðnir um að fara sérstaklega varlega. Að sögn Guðmundar Eyjólfssonar, vettvangsstjóra Lögreglunnar á Suðurnesjum í Grindavík, er mat björgunarsveitarfólks við gosstöðvarnar að þar séu nú um 300 manns.

Guðmundur sagði í samtali við fréttastofu laust fyrir miðnætti að kvöldið hafi gengið nokkuð vel fyrir sig, utan eitt minniháttar slys. Sá slasaðist á fæti og var fluttur með sjúkrabíl frá Suðurstrandarvegi. 

Björgunarsveitarfólk og lögreglumenn eru til taks við gosstöðvarnar og halda fólki fjarri þeim svæðum þar sem gildi gasmengunar eru há. Nú er suðvestan og vestan þrír til tíu metrar á sekúndu á gossvæðinu og gasmengun því mest til austurs og norðausturs frá eldstöðvunum. Um hádegi á morgun snýst í norðan og norðaustan 13 til 18 metra á sekúndu með hríðarveðri og berst gasið þá til suðurs og suðvesturs.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV