Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Margt fyndið sem kemur fyrir mann í strætó“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Margt fyndið sem kemur fyrir mann í strætó“

25.03.2021 - 11:46

Höfundar

Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld tekur strætó frá Selfossi til Reykjavíkur í vinnuna og þar varð til ljóðabókin Er ekki á leið – strætóljóð.

Ljóðabók Elínar hefur að geyma bráðskemmtileg og fyndin ljóð sem sprottin eru af strætóferðum hennar milli Selfoss og Reykjavíkur.  

„Eftir ég fór að vinna meira í Reykjavík, þá tók ég oftar strætó, þá er mjög mikill tími sem fer í að hugsa og stúdera mannlífið. Það er eiginlega það sem ég geri í strætó. Þannig urðu ljóðin smám saman til líka í bókinni. Þetta voru hugrenningar milli svefns og vöku í vagninum,“ segir Elín í samtali við Egil Helgason í Kiljunni. 

Hún segir að strætóinn sé ákveðinn menningarkimi á Íslandi og andlitin verði kunnugleg þegar maður nýtir sér ferðamátan oft og reglulega. „Þannig að maður fer að spinna sögur um það í huganum og þetta er kannski líka mannlíf sem er dálítið falið. Af því þeir sem fara á einkabílnum eru bara í sínum heimi. Þetta er oft annar menningarkimi, sérstaklega á Íslandi, finnst mér. Það er meira allir sem nota almenningssamgöngur í öðrum löndum. Ég veit ekki hvort ég má segja það en mér finnst það stéttskiptara hér á landi.“

Elín býr á Selfossi, hún er tónlistarkona og kennir í Reykjavík og rekur einnig Bókakaffið á Selfossi. „Já, er þetta ekki bara svona eins og maður gerir, eins og allir Íslendingar eru bara í mörgum störfum.“ 

Henni þykir það ekki of mikið á manneskju lagt að ferðast með strætó milli Selfoss og Reykjavíkur vinnu vegna. Hún er ánægð með ferðamátann, segir hann í raun vera slakandi og þar geti maður einnig eignast vini. 

„Mér hefur alltaf þótt gaman að skoða fólk úr fjarlægð og pæla í því. Svo hittir maður auðvitað marga og maður er oft að bíða og fer að spjalla við fólk. Stundum er maður líka veðurtepptur og þarf að bíða enn þá lengur. Og þá fer maður enn þá meira að spjalla við fólk. Maður hittir auðvitað mikið sama fólkið og maður eignast bara vini, svona strætóvini.“

Rætt var við Elínu Gunnlaugsdóttur í Kiljunni á RÚV.