Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hraun flæði yfir í Meradali eftir um tvær vikur

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Hraun flæðir úr Geldingadölum austur í Meradali eftir um tvær vikur miðað við núverandi rennsli, samkvæmt hraunflæðilíkani sem kynnt var á fundi Vísindaráðs Almannavarna í dag. Ekki er talið líklegt að kvika nálgist yfirborð á öðrum stöðum kvikugansins.

„Aflögunargögnin sýna ekki miklar breytingar eftir gosið, bara í raun og veru rétt við gossprunguna. Það eru engar vísbendingar um að annar hluti gangsins hafi komið nálægt yfirborði þannig að við getum andað aðeins léttar í dag en það er kannski ekki hægt að segja til um næstu daga,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Á fundinum var einnig kynnt nýtt hraunflæðilíkan. „Ef að meðalrennsli heldur áfram svona um 5,7 rúmmetra á sekúndu þá gæti flætt yfir í Meradali,“ segir Elísabet og bætir við að hraun myndi flæða þangað eftir um tvær vikur. Miðað við líkanið séu engir innviðir eða mannvirki í hættu.

Flúor hefur mælst í regnvatnssýnum við gosstöðvarnar. „Það getur verið hættulegt, sérstaklega hundum ef þeir eru að fá sér að drekka þegar fólk tekur þá með upp á eldstöðina, þannig það þarf að skoða þetta aðeins betur,“ segir Elísabet.