Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hæstiréttur mildar dóm yfir Júlíusi Vífli

25.03.2021 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Hæstiréttur mildaði í dag dóm yfir Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fyrir peningaþvætti. Júlíus var í héraði og Landsrétti dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi en Hæstiréttur mildar refsinguna niður í sex mánuði. Hann staðfesti engu að síður peningaþvættisbrot borgarfulltrúans fyrrverandi. Einn dómari vildi sýkna Júlíus.

Ólafur Börkur segir í áliti sínu að hann sé sammála því að Júlíus hafi gerst sekur um peningaþvætti. Hann telji brotið hins vegar fyrnt og því eigi að sýkna hann af ákærunni.

Júlíus var ákærður fyrir að þvætta tugmilljóna ávinning af fyrndum skattsvikum. Júlíus viðurkenndi að hafa ekki greitt skatta af fjármunum sem hann átti á erlendum bankareikningi, en upphæðin var ekki nákvæmlega ljós. Í ákæru var hann sagður hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna, sem voru sagðar vera ávinningur af skattsvikum.

Rannsókn skattayfirvalda á málinu fór af stað eftir að Kastljós fjallaði um Panamaskjölin í apríl 2016. Þar var greint frá aflandsfélaginu Silwood Foundation í eigu Júlíusar.

Júlíus neitaði sök þegar ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur og í greinargerð til dómsins sagði hann sakamálið sprottið af því að hann væri fyrrverandi stjórnmálamaður – aðrir hefðu aldrei fengið sambærilega meðferð. Hann gagnrýndi sömuleiðis að yfirmaður rannsóknarinnar væri félagsmaður í Vinstri grænum og hefði því verið vanhæfur til að fara með málið.

Athygli vakti að hann þurfti ekki að endurgreiða tugmilljóna ávinning af brotunum þar sem saksóknari gerði ekki kröfu um slíkt þótt það væri heimilt samkvæmt lögum.