Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gufubólstrar við Trölladyngju ekki merki um eldvirkni

Mynd: Haraldur U. Diego / Haraldur U. Diego
Gufubólstrar sem stíga upp frá Höskuldarvöllum og sáust vel í bjartviðrinu og stillunni í morgun, eru ekki til marks um eldvirkni. Almannavarnir fengu ábendingar um reyk eða gufu við Trölladyngju í dag og fyrir þremur dögum.

Gunnar Schram, hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við fréttastofu sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra hefðu flogið dróna yfir gufunni til að ganga úr skugga um þetta. Þegar sambærileg ábending barst á dögunum kom í ljós að enn rýkur gufa úr gömlum gíg skammt frá gamalli rauðamalargryfju á Höskuldarvöllum undir Trölladyngju.

Meðfylgjandi myndir og myndskeið tók Haraldur U. Diego, flugmaður sem gengur undir nafninu VolcanoPilot á samfélagsmiðlum. Hann flaug yfir eldstöðina í Fagradalsfjalli í morgun og nærliggjandi svæði.

Það kann að vera að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafi breytt jarðhitasvæðum og að þess vegna rjúki meira úr þessum gamla gíg nú. Sá gamli gígur er í Trölladyngjukerfinu – öðru eldgosakerfi en nú gýs úr í Geldingadölum í Fagradalsfjalli – og ekki tengdur kvikuganginum sem nær frá Keili í norðaustri undir Nátthaga í suðvestri.

Gunnar segir að stöðugan hita og reyk leggi upp úr gígnum á Höskuldarvöllum allan ársins hring. Gígurinn hafi jafnvel verið vinsæll meðal ferðamanna sem vilja skoða jarðhita á Íslandi.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV