Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Finnst tilætlunarsemi að vaða út í óvissuna að gosinu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Samgönguráðherra segir það tilætlunarsemi af fólki að vaða út í óvissuna til að skoða eldgos og treysta á björgunarsveitir sem hafi staðið vaktina vikum saman. Þingmaður Pírata segir að búa verði betur að lögreglu á svæðinu.

Það er búið að loka gönguleiðinni sem stikuð var upp að gosstöðvunum í Geldingadölum, þar sem gasmengun frá eldgosinu liggur nú þar yfir. Það er búið að stika nýja leið, sem hefst á sama stað við Suðurstrandarveg en liggur vestar en gamla gönguleiðin og leiðir fólk að gosinu frá norðvestri.

Spáð er versnandi veðri á svæðinu þegar líða tekur á daginn, norðlægri átt og snjókomu í kvöld og nótt með lélegu skyggni. Veðurstofan varar við að ekkert útivistaveður verði á svæðinu, en ekki er búið að taka ákvörðun um hvort því verði hreinlega lokað vegna veðurs.

Allt frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall fyrir tæpri viku hafa þúsundir streymt þangað til að berja gosið augum og festa á filmu.

Á örskömmum tíma er gönguleiðin þangað orðin sú alvinsælasta með tilheyrandi álagi á lögreglu og ekki síst björgunarsveitir sem hafa staðið vaktina sólarhringum saman.

Smári McCarthy þingmaður Pírata velti þessu fyrir sér á Alþingi í dag og hvernig hægt væri að tryggja öryggi þegar svo mikið fjölmenni mætir á svæðið. Hann beindi spurningum sínum til samgönguráðherra um að lögreglu verði gert hægara um vik að sinna störfum sínum.

„Að það verði bæði búin til einhvers konar langtímaáætlun sem snýr að því að byggja upp lögregluna á svæðinu þannig að hún geti sinnt þessu hlutverki frekar en að reiða sig alltaf á óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf björgunarsveitanna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra kvaðst sammála því að björgunarsveitirnar í landinu eru frábærar og tilbúnar að leggja mikið á sig.

„Ég skal líka viðurkenna það að mér fannst það tilætlunarsemi af fólki að vaða út í óvissuna í kringum þetta gos og búast við því að fólk sem var búið að vera þrjár vikur á vakt í Grindavík ósofið að það væri líka að bjarga fólki sem að hefði kannski mátt fara aðeins varlegar.“