Bekkjarfélagar knúsaðir, hróp, öskur og jafnvel grátur

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - Fréttir

Bekkjarfélagar knúsaðir, hróp, öskur og jafnvel grátur

25.03.2021 - 16:15

Höfundar

Það fór ekki fram hjá neinum þegar hertar sóttvarnaaðgerðir voru kynntar af stjórnvöldum í gær. Framhaldsskólar voru þar engin undantekning en margir af elstu nemendum skólanna eru hræddir um að þetta hafi verið síðasti skóladagurinn þeirra.

Meðal þeirra aðgerða sem tóku gildi á miðnætti í dag er að grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólar verða lokaðir að minnsta kosti þar til páskafrí tekur við. Miðvikudagurinn var því líklega síðasti skóladagur útskriftarnema í framhalds- og menntaskólum þar sem að nær einungis próf og námsmat er á dagskrá eftir páska, lítil kennsla. 

Eiríkur Kúld Viktorsson, formaður nemendafélags Verslunarskóla Íslands, segir að stemningin í skólanum hafi verið súr í gær. Nemendur söfnuðust margir saman á Marmaranum svokallaða í alrými skólans og blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar var varpað upp á vegg. Hann segir að þegar Svandís hafi tilkynnt að skólarnir myndu loka hefðu heyrst hróp og öskur, sumir hafi grátið og flestir knúsað bekkjarfélagana sem þeir ættu eftir að sjá lítið af næstu vikurnar.

Þegar fólk hafi verið búið að jafna sig á fréttunum hafi Verslólögunum svo bara verið skellt í tækið og allir farið að syngja. Myndband úr skólanum sem birtist á Vísi í gær vakti einmitt talsverða athygli en þar sáust nemendur í hrúgu að dansa og syngja á áðurnefndum Marmara. „Þetta fór smá úr böndunum og fólk hugsaði þetta kannski ekki alveg til enda en það tók kennarana ekki langan tíma að grípa inn í og stöðva þetta,“ segir Eiríkur. 

Námsárið hefur verið furðulegt hjá framhaldsskólanemum eins og öðrum nemendum. Þeir misstu úr meiripart fjórðu annar námsins síðasta vor þegar öllu var skellt í lás í fyrsta skipti. Þau bundu hins vegar vonir við að eldra árið, sem sagt þeir sem útskrifuðust síðasta vor, færu verr út úr þessu en þau sem stefna á útskrift í vor en það hefur ekki verið raunin. „En við erum búin að aðlagast mjög vel, gera fullt og erum alveg sátt,“ bætir Eiríkur við. Hann hefur helst áhyggjur af þeim sem að taka við nemendafélagsstörfum á næsta ári og hafi sjálf ekki upplifað meirihlutann af því sem fylgir þeim störfum á venjulegu covid-lausu ári.

Flest allt félagslíf hefur verið rafrænt síðasta árið en stærri viðburðir hafa þó komist fyrir á síðustu mánuðum eftir að kennsla færðist í skólann. Þar á meðal hafi verið nemendafélagssýningar og listósýningar en engin böll hafa verið haldin. Eiríkur segist þó fyrir sitt leyti ganga sáttur frá borði en auk þess að hafa verið formaður Nemendafélagsins síðastliðið ár þá var hann líka í Gettu betur-liði skólans sem sigraði keppnina fyrir viku. Það sé því hægt að fagna ýmsu. „Það verður bara grátið á Hljóðnemann í kvöld“, segir hann glettinn að lokum.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚv
Eiríkur (fyrir miðju) og liðsfélagar hans sigruðu Gettu betur 2021 fyrir hönd Verslunarskólans.

Una Margrét Lyngdal, formaður Skólafélagsins í Menntaskólanum í Reykjavík, segir að eins og í Versló hafi stemmingin í MR verið áhugaverð í gær. Fréttirnar af lokun bárust í lok skóladagsins þannig að nemendur enduðu daginn á að kveðjast. „Við bjuggumst ekki alveg við þessu, þetta kom svolítið flatt upp á mann...Þetta var eiginlega meira sjokk heldur en síðast“ segir Una og bætir við að margir hafi verið sorgmæddir en einhverjir bjartsýnir á að fá að mæta í skólann einhverja daga eftir páska. 

Hún segir að álagið hafi verið mikið á nemendum síðasta árið, erfitt á köflum en á sama tíma lærdómsríkt. Nemendur hafi aldrei vitað hvað myndi gerast næst en þó hafi bjartsýni verið farin að ríkja meðal þeirra um að komast í útskriftaferð í sumar, það verði nú bara að koma í ljós hvernig bæði útskriftarferðum og útskriftinni sjálfri verði háttað en Una segist sjálf vonast til að geta haldið veislu. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Þetta eru nýju reglurnar sem taka gildi á miðnætti

Innlent

Óendanlega kát með að fá aftur félagslíf í skólana