Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Banna nafnlausan kosningaáróður

25.03.2021 - 21:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - RÚV
Formenn allra flokka sem eiga sæti á Alþingi lögðu í dag fram frumvarp um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu þeirra. Meðal þess sem er lagt til er að banna nafnlausan kosningaáróður.

„Frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjóra eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, skulu auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni,“ segir í frumvarpinu.

Þá er lagt til að ríkisskattstjóra verði falið að starfrækja sérstaka stjórnmálasamtakaskrá með upplýsingum sem birtar verða á vef stjórnarráðsins. Skráning stjórnmálasamtaka í skránna á að verða skilyrði fyrir fjárframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum. Jafnframt er skerpt á reglum um félagatal og vinnslu persónuupplýsinga.

Þá er lagt til að stjórnmálasamtökum verði óheimilt að nýta persónusnið til að beina að fólki auglýsingum sem letur það til þátttöku í kosningum. „Er með þessu leitast við að stemma stigu við hættu á tilteknum tilburðum sem á undanförnum árum hefur orðið vart við, einkum á samfélagsmiðlum, í tengslum við kosningar víða erlendis og felast í tilraunum til að hafa óæskileg áhrif á niðurstöður kosninga með sérmiðaðri vinnslu persónuupplýsinga,“ segir í frumvarpinu. 

Lögin eiga að auka traust á stjórnmálastarfsemi, tryggja sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði og gagnsæi stjórnmála. Þá eiga þau að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum flokkanna.