Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Uppruni smitsins ekki þekktur

24.03.2021 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Sautján kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Af þeim voru þrír utan sóttkvíar. Stór hluti smitanna tengist grunnskólum í Laugardal í Reykjavík. Fimmtán börn eru í einangrun. Ríkisstjórnin fundar um hertar aðgerðir og boðar til blaðamannafundar síðar í dag.

Margt bendir til að ný bylgja kórónuveirufaraldursins sé að hefjast eftir að fjöldi smita greindist í gær. Innanlandssmitin voru sautján, flest tengd grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Landamærasmitin eru fimm. Ekki hafa fleiri greinst með COVID-19 á einum degi síðan 30. nóvember. 

Jóhann Björn Skúlason er yfirmaður smitrakningarteymisins. Hann segir að smitin hafi ekki fundist í öðrum skólum en Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla. Uppruni smitsins hefur ekki fundist og því er óttast að smit geti leynst úti í samfélaginu.  Jóhann býst við því að nokkur fjöldi þeirra sem eru í úrvinnslusóttkví þurfi að fara í hefðbundna sóttkví.

„Já það er von á því allavega að þetta sem er búið að gefa út með 6. bekk í Laugarnesskóla og svo ákveðinn hóp sem er hjá Þrótti og svo eru fjölskyldur þarna í kring, þannig að þetta er svolítið stór hópur,“ segir Jóhann.

Er þetta bylgja sem er að fara af stað?

„Ég veit ekki hvort að ég get sagt um það, en við erum að reyna að girða fyrir þetta og vonandi ber það árangur. Það sem er ekki ljóst nákvæmlega hvaðan smitin koma nákvæmlega þarna þá erum við smeyk við að það geti leynst smit annars staðar sem gæti blossað upp. Ef þetta blossar svona upp á mörgum stöðum þá getum við sagt að það sé bylgja farin af stað,“ segir Jóhann.

Hann segir að smitin séu ekki dreifð utan höfuðborgarinnar og að smitin hafi greinst við lok sóttkvíar hjá 11 nemendum sem greindust. 

 

454 eru nú  í sóttkví og 75 í einangrun, þar af fimmtán undir 18 ára aldri. Þetta virðist vera vísir að nýrri bylgju sem er keyrð áfram af hinu svokallaða breska afbrigði. Sérfræðingar telja að þetta afbrigði sé meira smitandi en önnur.

Þórólfur Guðnason hefur skilað minnisblaði með tillögum til heilbrigðisráðherra. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fela þær í sér umtalsverðar takmarkanir. Ríkisstjórnin boðar til blaðamannafundar síðdegis. 

Öll börn í Laugarnesskóla og Laugarlækjarskóla eru í úrvinnslusóttkví og er grannt fylgst með framvindu smitanna í skólum í nágrenninu.
Smit greindist í sjötta bekk í Laugarnesskóla í byrjun vikunnar. Ekki er langt frá skólunum tveimur yfir í Langholtsskóla og Vogaskóla og æfa börn úr þessum skólum til að mynda saman hjá íþróttafélögum í hverfinu. Smitin eru rakin til íþróttaæfingar 19. mars.