Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tólf nemendur í Laugarnesskóla smitaðir

24.03.2021 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Laugarnesskoli.is
Einn starfsmaður Laugarnesskóla og tólf nemendur, allir í sjötta bekk, hafa greinst með kórónuveiruna síðustu daga en allir nemendurnir voru í sóttkví við greiningu. Allt starfsfólk skólans fer í sýnatöku í dag og ákvörðun um hvernig skólahaldi verður háttað næstu daga verður tekin síðdegis.

„Nemendur og starfsmenn eru bara heima. Við erum tveir starfsmenn í húsi, ég og Eíríkur skrifstofustjóri og erum að taka á móti upplýsingum og senda út eftir því sem tilefni er til. Og það verður lagt mat á það seinna í dag hvernig verður með skólahald á morgun og hinn, og svo er náttúrulega komið páskafrí,“ segir Björn Gunnlaugsson, skólastjóri í Laugarnesskóla. 

Björn segir að það liggi ekki fyrir enn hvort nemendurnir hafi smitast af kennaranum. Starfsfólkið hefur verið boðað í sýnatöku en það liggur fyrir síðar í dag hvort að fleiri starfsmenn fara í sóttkví, og fara þá eftir nokkra daga í sýnatöku. Vel á annað hundrað nemenda er í sóttkví og nokkrir tugir starfsmanna. „Áður en nemendur koma í skólann þá þurfum við fyrst og fremst að vera búin að tryggja það að það séu ekki möguleikar á smiti í skólanum, það þarf að vera búið að útiloka að smitaðir einstaklingar gætu verið að koma inn í skólann, það þarf að vera búið að sótthreinsa alla snertifleti og allar skólastofur og annað slíkt. Hvort við náum því í dag þannig að það verði skólahald fyrir alla á morgun eða hvort það taki aðeins lengri tíma, það verður bara að koma í ljós,“ segir Björn.