Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Smit á Kardemommubænum

24.03.2021 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið
Barn sem sótti sýningu Þjóðleikhússins um Kardemommubæinn hefur greinst með COVID-19. Barnið var meðal gesta á sýningu klukkan 12 á laugardaginn var. 12 manns eru í sóttkví vegna smitsins.

„Barnið sat ásamt foreldri sínu á enda á fremsta bekk á sýningu á Kardemommubænum laugardaginn 20. mars kl. 12.  Það er mat rakningarteymis Almannavarna að strangar sóttvarnarreglur og ábyrg framkvæmd sýninga geri það að verkum að aðeins þurfi 12 einstaklingar að fara í sóttkví  og eru það þeir sem voru í sætum næst viðkomandi. Enginn starfsmaður þarf að fara í sóttkví.  Sem varúðarráðstöfun hefur leikhúsið einnig miðlað upplýsingum um gesti sem sátu í sömu sætum á síðari sýningum helgarinnar til smitrakningarteymisins,“ segir í tilkynningu frá leikhúsinu.   

„Við höfum lagt allt kapp á að tryggja öryggi gesta og starfsfólks síðan heimsfaraldurinn skall á. Það höfum við gert í góðu samtali við yfirvöld, með því að fylgja ítrustu fyrirmælum og að ganga lengra en reglugerðir kveða á um.  Það sannast nú hversu mikilvægar allar þessar ráðstafanir varðandi viðburðarhald eru.  Við munum halda áfram að gera okkar besta í þessu samhengi.” segir Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.   

Ekki er sögð ástæða til að breyta framkvæmd viðburðahalds í leikhúsinu umfram þær almennu aðgerðir sem eru við líði. Fólk er hvatt til að vera vakandi fyrir eigin heilsu og mæta ekki finni það fyrir minnstu einkennum.