Skrúfukvöld í Mosfellsdal

Mynd: Karl Sigtyggsson / RÚV/Landinn

Skrúfukvöld í Mosfellsdal

24.03.2021 - 07:50

Höfundar

„Ég er hérna mjög oft, nokkrum sinnum í viku, enda finnst mér þetta skemmtilegasti staðurinn að vera á," segir Ásgrímur Örn Alexandersson. Staðurinn sem hann talar um er bílskúrinn heima hjá honum í Mosfellsdal.

Þar koma hann og vinir hans saman í hverri viku á skrúfukvöldum sem Alexander Kárason, pabbi Ásgríms, stendur fyrir.

„Þetta byrjaði síðasta sumar en við höfum samt verið að fást við ýmislegt saman síðustu ár, ég og strákarnir, bæði í rallýkrossi og við erum á sleðum og fjórhjólum og svona þannig að mér fannst bara kjörið að búa til svona fastan grunn utan um þetta. Þetta þróaðist síðan þannig að þetta varð að valeiningu í Varmárskóla þar sem strákarnir eru í grunnskóla. Þetta eru strákar sem eru duglegir og hafa gaman af tækjum og kjörið að þeir fái vettvang tl að leika sér og fá stuðning við það sem þeir hafa gaman af og vilja kannski leggja fyrir sig í framtíðinni," segir Alexander.