Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sigríður spyr hvort fórna eigi öllu vegna þriggja smita

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórnina að fara að tilmælum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra gerir athugasemdir við það að herða eigi sóttvarnaaðgerðir vegna þriggja smita utan sóttkvíar. Loforð um eðlilegt líf sé þar með fokið.

Rósa Björk hvatti ríkisstjórnina til að víkja ekki frá tilmælum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis eins og gert hafi verið á mánudaginn í síðustu viku.

„Heldur halda áfram að hlýða á okkar færustu sérfræðinga og hlýða áfram sóttvarnalækni og þeim ráðleggingum sem þaðan koma og ekki hlusta heldur á raddir sem koma úr ákveðnum armi Sjálfstæðisflokksins um það að hér eigi að slaka á öllu,“ sagði Rósa Björk á Alþingi í dag.

Sigríður Andersen var á öndverðum meiði. „Fréttir berast af því að nú verði boðað til hertra aðgerða innanlands þar fór þetta ársgamla loforð um um eðlilegt líf innanlands enn og aftur með miklum lokunum og fjöldatakmörkunum rótin af þessu eru sem sagt þrjú smit sem greinast utan sóttkvíar.“

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis frestaði þingfundi klukkan rúmlega hálftvö að loknum umræðum um störf þingsins til klukkan fjögur síðdegis.

Það er gert í ljósi breyttra aðstæðna þar sem ríkisstjórnin situr nú á fundi og hefur boðað til blaðamannafundar í Hörpu sem hefst klukkan þrjú. Þar verður líklega tilkynnt um hertar aðgerðir vegna nýrrar bylgju faraldursins hér.

Þar verða fulltrúar ríkisstjórnarinnar, Alma D. Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Blaðamannafundurinn verður í beinni útsendingu á vefnum, og á Rás2.