Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir skiptingu fjár til menningarmála ósanngjarna

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Formaður stjórnar Akureyrarstofu, sem fer með menningarmál bæjarins, er ósátt við framlag ríkisins til menningarmála í sveitarfélaginu. Bærinn fær fimm prósent af þeirri fjárhæð sem ríkið ver til menningarmála á höfuðborgarsvæðinu. Endurnýjaður menningarsamningur verður að líkindum undirritaður á næstu dögum.

Framlög til Akureyrar um 200 milljónir

Ríkið greiðir árlega um fjóra milljarða króna til menningarmála á þess vegum á höfuðborgarsvæðinu. Akureyrarbær hefur fengið um 200 milljónir og reiknað með að það framlag verði um 230 milljónir í ár. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu, vill að forsendum samninga verði breytt. 

„Við myndum vilja sjá að samningurinn væri hugsaður frá grunni með öðrum hætti. Þ.e.a.s. að skoðað væri svæðisbundið hlutverk þessarar menningarstofnana hér og staðan greind út frá því. Svæðisbundið hlutverk Leikfélags Akureyrar,  Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Listasafns Akureyrar er gríðarlega mikilvægt og gæti verið hægt að segja að þessar stofnanir þjóni 10% landsmanna og því ætti fjármögnun að vera í kringum það miðað við systurstofnanir í Reykjavík," segir Hilda.

Staðan ósanngjörn

Hún segir að Akureyarbær leggi mun meira til menningarmála en sambærileg sveitarfélög. „Tökum sem dæmi bara Garðabæ, setur 220 milljónir árlega til menningarmála, Akureyrarbær setur 920 milljónir. Það er nefnilega alveg skiljanlegt vegna þess að í Garðabæ þarf ekki að starfrækja atvinnusinfóníuhljómsveit, leikhús eða listasafn þegar það er bara rétt handan við hornið í Reykjavík, fjármagnað af ríkinu. Þessi staða vegna fjarlægðar er auðvitað ekki hér, sem gerir stöðuna, bara ósanngjarna."