Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir gildandi sóttvarnaaðgerðir gera Ísland fátækara

Mynd: RÚV / RÚV
„Engu ríki hefur tekist að vernda heilsu, hvað þá líf, borgara sinna með því að verða fátækara. Og Ísland er að verða fátækara með hverjum deginum sem líður í aðgerðum sem þessum.“ Þetta segir Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokkins í samtali við fréttastofu. 

Þótt fólk finni ekki fyrir aðgerðunum í veskinu núna því aðgerðir vegi upp á móti því. „Það mun því miður verða óhjákvæmilegt til lengri tíma og því skiptir miklu máli að komast út úr þessu ástandi sem fyrst.“

Sigríður gerði athugasemdir á þingi í dag við það að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að herða sóttvarnaraðgerðir eftir að þrjú smit greindust utan sóttkvíar.

Hún kveðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með hve harkaleg viðbrögðin hafi verið í ljósi þess hve fá smitin eru. „Auðvitað eru alltaf einhver smit grasserandi í landinu.“

Með nýjum sóttvarnarlögum sem samþykkt voru í febrúar segir Sigríður að áréttað hafi verið að allar aðgerðir þurfi að vera í samræmi við meðalhóf. Henni finnst skorta upplýsingar til þingsins um forsendur aðgerðanna.

Sigríður kveðst sakna þess að þingmenn skuli ekki taka þetta mál til umræðu út frá þeim vinkli. „Það er aðeins of mikil geðshræring,“ Hún hvetur til að áhersla verði lögð á bólusetningu sem er að hennar mati mjög ábótavant.

Hún hafi hvatt til þess að leitað verði leiða til að fjölga bóluefnum, til dæmis hjá Evrópusambandsríkjum sem sitji upp með talsvert magn ónotaðs bóluefnis.

„Ég hef kallað eftir því að heilbrigðiseftirlitið fari markvisst í að fá lánað bóluefni um sinn því við getum komi því út strax.“ Nú sé búið að bólusetja viðkvæmasta fólkið, lanflesta eldri borgarana sem gangi ágætlega.

Sigríður segir komið að því að svara því hvaða þýðingu bólusetning hafi. „Ég hef áhyggjur af því að menn ætli ekki að draga úr aðgerðum eða áhyggjum af þessum faraldri, jafnvel þótt allir í landinu verði bólusettir.“

Það verði þó aldrei en markmiðið sé að bólusetja viðkvæma hópa og einbeita sér að því að gera heilbrigðiskerfinu kleift að takast á við veiruna.

„Ég held það fari of mikil orka í þessar aðgerðir einmitt núna þegar við þurfum á orkunni og einbeitingu við bólusetningar og að efla heilbrigðiskerfið til lengri tíma. Það erum við ekki að gera núna.“

Sigríður segir bólusetningar ganga vel þegar bóluefni sé að fá. Vandinn sé bóluefnaskorturinn sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

„Þá hefðum við átt að gera samninga við alla bóluefnaframleiðendur um skammta fyrir að minnsta kosti 90 þúsund manns.“ Það séu þeir hópar sem brýnast sé að bólusetja, eldri borgarar og viðkvæmir.

Hún segir að aðgerðirnar nú hafi alvarlegar, neikvæðar afleiðingar fyrir lýðheilsu, sem komi veirunni ekkert við. „Það þarf að líta á málið heildstætt,“ segir Sigríður Á. Andersen.