Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ryanair spáir líflegu ferðasumri

24.03.2021 - 17:13
epa04035865 Michael O'Leary, CEO of Irish budget airline group Ryanair, attends a news conference in Brussels, Belgium, 22 January 2014. Ryanair announced already strong bookings on its 10 new routes from Brussels Zaventem ahead of its base opening
 Mynd: EPA
Forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair vonast eftir líflegu ferðasumri innan Evrópu. Fólk þyrsti í tilbreytingu eftir yfirþyrmandi leiðindi síðastliðið ár.

Forstjórinn, Michael O'Leary sagðist á fjarfundi með fréttamönnum í dag gera ráð fyrir áttatíu prósenta nýtingu flugflotans yfir sumarmánuðina. Fólk væri farið að þyrsta í að láta fara vel um sig og sína á fjarlægum baðströndum.

O'Leary sagði að bókanir hefðu tekið kipp upp á síðkastið, bólusetning gegn COVID-19 gengi vel í Bretlandi og hann tryði ekki öðru en að aðrar Evrópuþjóðir ættu eftir að ná sama árangri og Bretar innan skamms. Hann kvaðst ekki geta fullyrt að allt yrði í lagi en hann vonaði að þegar skólar fara í frí í júní, júlí og ágúst ættu flugferðir á styttri flugleiðum innan Evrópu eftir að taka kipp.

O'Leary minnti á að nú þegar væri búið að bólusetja helming Breta og í maílok ætti hlutfallið að vera komið upp í áttatíu prósent. Portúgalar, Spánverjar, Grikkir og Kýpverjar væru þegar búnir að lýsa því yfir að bólusettir Bretar væru velkomnir í sumar. Útlitið með sumarleyfisferðir á fjarlægar slóðir væri hins vegar ekki jafn gott.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV