Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norður-Kórea prófaði skammdræg flugskeyti

24.03.2021 - 03:44
epa09092585 TV screens show news broadcast at the Yongsan electronics market in Seoul, South Korea, 24 March 2021. US President Joe Biden's administration officials on 23 March reportedly confirmed on condition of anonymity that North Korea fired short-range missiles last weekend, just two days after Kim Jong-un’s sister had threatened South Korea and the United States for conducting joint military exercises.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nokkrum flugskeytum var skotið frá Norður-Kóreu út á haf örfáum dögum eftir opinbera heimsókn varnarmála- og utanríkisráðherra Bandaríkjanna til nágrannaríkja landisns. Hátt settir menn úr Bandaríkjastjórn sögðu í samtali við AFP fréttastofuna að tilraunirnar hafi bara verið hefðbundnar æfingar. Þær komi ekki í veg fyrir tilraunir stjórnvalda í Washington til að ræða við Norður-Kóreu um afkjarnavopnun.

Að sögn sérfræðinga voru flugskeytin skammdræg og án sprengjuodda. Tilraunirnar hafi ekki verið í neinni líkingu við fyrri tilraunir ríkisins með kjarnavopn og meðaldrægar sprengjur. Þær eru jafnan gerðar til að ögra Bandaríkjastjórn. 

Að sögn fjölmiðla vestanhafs hefur Bandaríkjastjórn gengið illa með að ná sambandi við stjórnvöld í Pyongyang. Joe Biden er sagður vongóður um að taka upp þráðinn í viðræðum um afkjarnorkuvæðingu Norður-Kóreu. Bandaríkin ætla að fá aðstoð Japana og Suður-Kóreumanna við að ná sambandi við Norður-Kóreu og miðla málum.

Donald Trump, forveri Bidens, var fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að halda leiðtogafund með leiðtoga Norður-Kóreu. Þeir Kim héldu tvo fundi, eftir stormasamt samband framan af. Þeir undirrituðu sáttmála í Singapúr árið 2018, en í febrúar ári síðar sleit Kim viðræðunum og lét sig hverfa áður en fundinum lauk. Síðan þá hafa samskipti Norður-Kóreu og Bandaríkjanna verið stíf.