
Lífseigur boðskapur Rauðhettu og úlfsins
„Ég er bara búin að fá nóg af þessu, ég er algjörlega komin með nóg af því að heyra frásagnir af kynferðislegu ofbeldi í sjónvarpinu vitandi að ekkert er gert í þessu. Ég er búin að fá alveg nóg af ofbeldi gegn konum. Það er kominn tími á meiri háttvísi í þessu siðmenntaða samfélagi.“
Þetta sagði ónefnd kona, ein þeirra fjölmörgu sem tók þátt í mótmælum í Sidney í Ástralíu á mánudaginn í síðustu viku. March 4 Justice var yfirskriftin, Mars eða marserað fyrir réttlæti. Í um 40 borgum vítt og breitt um hina víðfeðmu Ástralíu komu konur saman og tóku þátt í hinni boðuðu samstöðu.
Kveikjan að mótmælunum nú eru tvö mál sem mikið hefur verið fjallað um í áströlskum miðlum undanfarið.
Annað þeirra snýr að Christian nokkrum Porter, dómsmálaráðherra Ástralíu. Í febrúar sögðu ástralskir fjölmiðlar frá ásökunum konu, sem sagði að sér hefði verið nauðgað þegar hún var 16 ára gömul árið 1988. Í umfjölluninni kom fram að meintur gerandi væri nú ráðherra í ríkisstjórn Ástralíu. Konan fyrirfór sér árið 2020, en hafði áður skrifað bréf til mannsins sem hún sagði hafa brotið á sér, Christian Porter.
Lögregla sagði þann 2. mars að þrátt fyrir fjölmiðlaumfjöllun væru ekki nægileg sönnunargögn til að halda áfram með málið fyrir dómstólum. Daginn eftir greindi Porter sjálfur frá því að hann væri hinn ásakaði. Hann hefur þó alltaf haldið fram sakleysi sínu. Hann sagðist sannarlega hafa hitt konuna þegar hann var 17 ára en þverneitar að hafa brotið á henni. Porter ætlar að höfða mál gegn ABC-fréttastofunni sem fyrst greindi frá málinu. Hann er í veikindaleyfi.
Segir frá nauðgun í þinghúsinu
Seinna málið, sem mótmælendum þykir einnig óboðlegt, er mál Brittany Higgins. Í febrúar greindi hún frá því að henni hefði verið nauðgað í þinghúsinu í höfuðborginni Canberra árið 2019. Þar starfaði hún sem ráðgjafi og fór kvöld eitt út að skemmta sér með vinnufélögum sínum. Einn kollegi hennar bauð henni far heim, sem hún þáði, en kolleginn fór með hana í þinghúsið. Þar sofnaði Higgins á sófa, og sagðist hafa verið mjög drukkin. Hún vaknaði við að samstarfsmaður hennar var að brjóta á henni.
Tveimur árum síðar, nánar tiltekið í síðastliðnum mánuði, tjáði Higgins sig fyrst opinberlega um árásina. Í viðtali vegna málsins lýsir hún viðbrögðum annarra samstarfsmanna hennar og yfirmanna við ásökunum hennar. Þau reyndu að þagga málið niður, hún hafi verið vandamálið. Brittany Higgins, ávarpaði samkomu mótmælenda í Sidney á mánudaginn var.
„Ég er að ávarpa ykkur hér í dag af nauðsyn. Engin okkar er hér af því að okkur langar til þess, við erum hér af því að við þurfum þess. Við erum sammála um að kerfið er rotið, glerþakið er enn á sínum stað og það er verulega mikið ójafnvægi í valdajafnvæginu innan stofnana okkar. Við erum hér af því að það er gjörsamlega óskiljanlegt að við þurfum að taka þessa sömu, þreyttu baráttu aftur og aftur,“ sagði Brittany Higgins meðal annars í ræðu sinni.
„Samstarfsmaður minn nauðgaði mér í þinghúsinu. Lengi á eftir leið mér eins og eina ástæða þess að fólk lét sig málið varða væri hvar þetta gerðist og hvað það gæti þýtt fyrir það. Það var mjög ruglandi því þetta fólk var fyrirmyndirnar mínar. Ég hafði helgað mig samstarfi við þau. Þau voru ekki bara samfélagsnetið mitt, heldur líka samstarfsfólk mitt og fjölskylda og skyndilega komu þau öðru vísi fram við mig. Ég var ekki kona sem hafði orðið fyrir hræðilegri árás. Ég var orðin pólitískt vandamál.“
Kona myrt í hverri viku
Ef þessi tvö mál voru kveikja mótmælanna má alveg halda því fram að eldsneytið hafi verið nægt fyrir.
Ofbeldi á konum í Ástralíu er staðreynd, eins og reyndar í flestum samfélögum. Í hverri viku er kona myrt af maka eða fyrrverandi maka í Ástralíu. Tölfræðin er önnur þegar karlar eru annars vegar. En einu sinni í mánuði er karl myrtur af maka eða fyrrverandi maka þar í landi.
Samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2018 hafði ein af hverjum fimm konum í Ástralíu verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða hótunum eftir 15 ára aldur. Það eru um 1,7 milljónir kvenna.
„Þetta snýst ekki bara um það sem er að gerast á þinginu, sem er reyndar algjört hneyksli. Þetta gerist í skólum, háskólum, athvörfum fyrir hælisleitendur, á skrifstofum, úti um allt. Þetta kemur fyrir fólk með fötlun, þetta kemur fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum. Það er allt of mikið um yfirhylmingu, og allt of lítið um aðgerðir,“ sagði ónefnd kona sem tók þátt í mótmælunum í Ástralíu, í viðtali við AP-fréttastofuna.
Flest hafa spjótin staðið á Scott Morrisson, forsætisráðherra landsins. Hann ávarpaði þingið á mánudag, sama dag og mótmælin stóðu sem hæst.
Hann fékk ekki alveg ræðufrið þegar hann reyndi að fullvissa þingið á mánudag um að bæði hann og ríkisstjórn hans skildu vel reiði mótmælenda. Vilji þeirra stæði einnig til þess að konum fyndist þær öruggar í starfi og í samfélaginu öllu. Og að konur upplifðu sig öruggar í þinghúsinu. Það væri sannarlega markmið bæði hans og ríkisstjórnar hans.
Orð eru til alls fyrst, og það er ekki eins og engar hugmyndir komi fram. Ástralski lögreglustjórinn Mick Fuller stakk til að mynda upp á því í vikunni að leitað yrði á náðir tækninnar til að reyna að skera upp herör gegn kynferðisofbeldi. Hann stakk upp á notkun eins konar samþykkis-apps, samþykkis-smáforrits.
Fuller segir að iðulega sé brotið á konum þegar þær eru undir áhrifum áfangis eða annarra vímuefna. Væri til einhvers konar samþykkis-smáforrit gæti það auðveldað málin fyrir dómstólum, það væri erfitt að fá rænulausan einstakling til að staðfesta samþykki sitt í símanum. Við sjáum hvað setur með það.
Örlög Söruh Everard
En það var víðar í heiminum sem fjöldi fólks kom saman í vikunni í mótmælaskyni við ofbeldi á konum. Um fátt annað hefur verið fjallað í bresku samfélagi, ja nema kannski viðtalið við Harry og Meghan, en örlög Söruh Everard.
Sarah Everard var 33 ára. Miðvikudagskvöldið 3. mars var hún í heimsókn hjá vinahjónum sínum. Hún lagði svo fótgangandi af stað heim um níuleytið. Gönguferðin átti að taka um 50 mínútur og vitað er að hún ræddi við kærastann sinn í síma á leiðinni heim. Síðan var engu líkara en jörðin hefði gleypt hana, sem hún gerði reyndar sannarlega ekki. Þegar enginn hafði heyrt frá Everard í tvo daga setti Lundúnalögreglan skilaboð á Twitter og bað hana að hafa samband við ættingja sína.
Engin skilaboð bárust og lögregla hóf leit. Leit sem bar ekki árangur fyrr en nokkrum dögum síðar þegar líkamsleifar, sem síðar reyndust vera Everard, fundust í skóglendi í Ashford.
Lögreglumaðurinn Wayne Couzens hefur verið ákærður fyrir mannrán og morð. Hann gekk til liðs við Lundúnalögregluna fyrir þremur árum og hafði sinnt öryggisgæslu við sendiráð. Hann var þó ekki á vakt kvöldið sem Everard var myrt. Talskona Lundúnalögreglunnar sagði að þau væru öll miður sín yfir því að einn úr þeirra röðum væri grunaður um aðild að málinu.
Morðið á Söruh Everard mun nú hafa sinn gang í réttarkerfinu, en eftir sitja vinir hennar og ættingjar. Og líkt og í Ástralíu ýfir málið upp gömul og ný sár.
Meira en helmingi færri konur en karlar voru myrt í Bretlandi síðastliðinn áratuginn, um 4.500 karlar, rúmlega 2.000 konur. Umtalsverður munur er líka á því hver morðinginn er.
8% karla eru drepnir af fyrrverandi eða núverandi maka eða öðrum í fjölskyldunni. 46% kvenna, eða næstum helmingur þeirra sem eru myrtar í Bretlandi, eru drepnar af fyrrverandi eða núverandi maka eða öðrum ættingja.
Í nýlegri samantekt Amnesty International kemur fram að í viku hverri eru tvær konur myrtar af maka sínum á Englandi og í Wales.
Breska lögreglan fær að meðaltali eitt símtal á hverri mínútu þar sem tilkynnt er um heimilisofbeldi. Í 89% tilfella eru það ásakanir um að karlmaður sé að beita konu ofbeldi. Þá segir jafnframt að einungis um fjórðungur allra tilfella heimilisofbeldis sé tilkynntur eftir þessum leiðum.
En dauði Söruh Everard varpaði ekki bara ljósi á þessar staðreyndir. Öryggi kvenna á götum úti hefur verið hvað mest í umræðunni.
Ekki vera of drukknar, haldið hópinn
Þær voru mjög margar, bresku konurnar, sem greindu frá allt að því innbyggðum ótta við að vera einar á ferli að kvöldlagi. Stúlkum sé innprentað frá barnæsku að þær verði að passa sig, ekki vera einar á ferli, ekki troða fáfarnar slóðir og almennt bara hafa varann á. Svona eins og Rauðhetta átti alltaf að vera á varðbergi fyrir úlfinum. Veiðimaðurinn var sannarlega á vappi til að reyna að hafa hendur í hári úlfsins en það gekk ekkert sérstaklega vel eins og við munum. Veiðimaðurinn náði ekki að handsama úlfinn fyrr en hann lá afvelta í rúmi ömmunnar, búinn að gleypa bæði Rauðhettu og ömmu hennar.
Fjölmargar breskar konur hafa í vikunni sagt upphátt frá ótta sínum við að vera einar á ferli að næturlagi. Og tíundað öll ráðin sem þær hafa fengið til að verjast ef á þær er ráðist. Mundu að halda um lyklana í vasanum, þeir gætu nýst sem vopn. Haltu um símann þinn og vertu tilbúin að hringja. Vertu með einhvern á línunni alla leiðina heim. Ekki vera of drukkin. Haldið hópinn. Og svo framvegis.
Þær þúsundir kvenna sem tóku þátt í mótmælum vikunnar vilja nefnilega margar berjast fyrir því að þær megi vera fáklælddar, blindfullar og aleinar í húsasundi að næturlagi, ef þeim sýnist svo. Það sé samfélagsins og okkar allra að standa vörð um frelsi einstaklingsins.
#Metoo-byltingin kom og breytti mörgu. En miklar breytingar gerast hægt. Kannski vegna þess að hún situr í öllum, konum og körlum, sagan sem við heyrðum í barnæsku.
Rauðhetta á alltaf að passa sig á yfirvofandi ógn. Það er á hennar ábyrgð að halda sig á stígnum og hafa varann á.
Ólíkt refnum í Dýrunum í Hálsaskógi þarf úlfurinn í Rauðhettu ekkert að aðlaga sig samfélaginu sem hann býr í, að breyta hegðun sinni sem skaðar aðra.