Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Búast við 1.500 manns í skimun í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Búist er við 1.500 til 1.600 manns í sýnatöku vegna COVID-19 hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag. Sautján greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær, þar af voru þrír utan sóttkvíar. Flest þeirra smituðu eru grunnskólabörn, þar af tólf nemendur í Laugarnesskóla.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að búist sé við til 1.500 til 1.600 manns, að minnsta kosti, í skimun í dag. „En við gætum alveg lent í því að það verði svolítið fleiri því að það voru að greinast nokkrir og við höfum áhyggjur af því og það er verið að kalla marga inn í sýnatökur í dag,“ sagði Óskar í morgun.

Óvenju mörg börn koma í sýnatöku í dag, þar á meðal nokkrir heilir bekkir. Óskar segir þetta ganga vel fyrir sig. Starfsfólk heilsugæslunnar stökkvi frá sínum störfum til að taka þátt og eins séu fyrrum starfsmenn kallaðir til þegar álagið er mikið. „Það er mikill áhugi á að láta þetta ganga,“ segir hann. Síðan eru samningar við heilbrigðisfyrirtæki sem með vinna með þeim líka. 

Fjöldinn sem kemur í skimun í dag er þó ekki sá mesti sem verið hefur í faraldrinum. Fjöldinn hefur áður verið þrjú til fjögur þúsund á dag en lagt er síðan svo margir voru skimaðir á einum degi og til stendur að gera í dag. Óskar hvetur fólk til að mæta í sýnatöku. „Það er mikilvægast af öllu til þess að stoppa faraldurinn og mæta við minnstu einkenni, sem allir vita hvað eru, það er hiti, hósti, kvef, höfuðverkur.“