Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Tilvalið mál til að fara með í íbúakosningu“

23.03.2021 - 15:14
Mynd: RÚV / RÚV
Bæjarstjórnin á Akureyri ætlar setja umdeild skipulagsáform á lóð í bænum í íbúakosningu. Forseti bæjarstjórnar vonast til að með því náist sátt um lóðina sem hefur verið bitbein bæjarbúa.

Fólk skiptist í tvær fylkingar

Verktakinn SS byggir kynnti hugmyndir haustið 2019 um að reist yrðu allt að ellefu hæða fjölbýlishús á Gránufélagsreit á Oddeyri. Á reitnum er gert ráð fyrir blandaðri byggð með 100-150 íbúðum. Málið vakti strax miklar umræður í bænum og segja má að fólk hafi skipst í fylkingar með og á móti húsunum. Síðan þá hefur málið farið sinn veg í kerfinu og tekið þeim breytingum að búið er að lækka húsin þannig að þau verði ekki hærri en fimm til sex hæðir.

 „Útfærslan er ekki alveg komin á hreint“

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar vonar að með íbúakosningu náist sátt um málið. „Útfærslan er ekki alveg komin á hreint. Við ætlum að setja það í hendurnar á bæjarstjóra og bæjarráði og það fer bara vinna af stað núna og við ætlum að reyna að vera með þetta allt tilbúið fyrir lok maí,“ segir Halla.

Verða gerðar einhverjar kröfur um lágmarksþátttöku eða eitthvað slíkt?

„Það er einmitt eitt af því sem þarf að ákveða.“

Vonar að kosningar skapi sátt

Hún segir að mikill áhugi sé á þessu máli og til marks um það hafi skipulagsráði borist hundrað athugasemdir við tillöguna. „Þetta er tilvalið mál til að fara með í íbúakosningu og ég geri mér vonir um bara mikla þátttöku og að það muni þá skapast sátt.“

En þið í bæjarstjórn, hver er afstaða ykkar í þessu?

„Sko skipulagsráð lagði til þessa tillögu þar náðist nú meirihluti fyrir þeirri tillögu sem er verið að leggja fram og ég get bara svarað fyrir mig, mér líst mjög vel á þá tillögu og mér finnst hún vera töluverð málamiðlun.“