Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þyrfti að gjósa í mörg ár til að stór dyngja myndist

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Eldgosið við Fagradalsfjall þyrfti að haldast stöðugt í áratugi til að mynda stóra dyngju. Fátt bendir til að það ógni byggð á næstu árum nema flæðið breytist. Eldfjallafræðingur segir að þetta geti hentað vel fyrir ferðamenn ef gosið heldur áfram. Rennslið úr gígnum hefur haldist stöðugt, með 5 til 10 rúmmetra flæði á sekúndu, síðan það hófst á föstudagskvöld.

Eins og grunn skál á hvolfi

Nú telja vísindamenn mögulegt að eldfjallið í Geldingadölum sé, eða verði, dyngja. Dyngjur eru breið, aflíðandi og keilulaga eldfjöll sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi (Vísindavefurinn). Dyngjur líkjast skál eða skildi á hvolfi og eru Skjaldbreiður og Trölladyngja líklega þær þekktustu hér á landi. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að helstu vísbendingarnar séu að gosið við Fagradalsfjall byrjaði á föstudagskvöld með litlu kvikustreymi, fimm til tíu rúmmetrum á sekúndu, og hefur haldið sig í því síðan. Sömuleiðis hafi flæðið inn í kvikuganginn verið stöðugt síðan í lok febrúar. 

„Við vitum líka annað, sem er mjög mikilvægt, að uppruni þessarar kviku er á verulegu dýpi, 17 til 20 km dýpi. Og þar er geymslutankurinn, ef svo má segja. Og hún kemur þarna upp, frá þessu dýpi, með þessu tiltölulega jafna, en litla streymi,” segir hann.  

Engin mannvirki í hættu í bráð

Ef þetta endar með dyngju sem hafi áhrif á umhverfið utan við Fagradalsfjall, þurfi gosið að halda áfram í áratugi, nema framleiðnin aukist verulega, og það sé ekkert útilokað. 

„En ef það heldur áfram á þessu stigi þá er það ekki að fara að setja nein mannvirki í hættu í bráð. Það eru einhverjar vikur í að hraunið fari út úr Geldingadal. Það náttúrulega bara hleðst upp þarna. Eins og við erum bara að horfa á,” segir Þorvaldur. „Jákvæði hlutinn af þessu er að ef við fáum svona langvinnt gos þá held ég að við séum komin með mjög heppilegt gos fyrir ferðamenn til að horfa á.” 

Hættulegur, blár reykur

Og meðal þess sem hefur sést á vefmyndavélinni í morgun er bláleitur reykurinn sem stígur upp úr gígnum og hrauninu. 

„Það er mjög óráðlegt að vera við hraunið og ofan í lægðinni við þessar aðstæður.” 

„Þessi bláa móða, það er brennisteinninn sem er ráðandi þar með litinn. Og eins ef menn finna lykt þá er það yfirleitt frá brennisteininum því koltvísýringurinn er lyktarlaus.” Hann varar við því að farið sé ofan í lægðirnar á lygnum degi sem þessum. Það geti verið stórhættulegt og jafnvel banvænt.