Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þessi áætlun er ekki að ráðast að rót vandans“

23.03.2021 - 13:43
Mynd: RÚV / RÚV
Formaður Samfylkingarinnar segir að ríkisstjórnin taki ekki á atvinnuleysi í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Það sé eina leiðin í stöðunni núna að skapa atvinnu. Fjármálaráðherra kynnti fjármálaáætlun næstu fimm ára í gær og það er búist við að hann mæli fyrir henni á Alþingi á morgun, síðan verði hún rædd á þinginu í tvo daga.

Samkvæmt henni, segir ráðherra, er afkoma ríkissjóðs rúmlega 130 milljörðum króna betri en í fyrri áætlun. Ekki er mikil stefnubreyting frá fyrri áætlun en framlög til loftslagsmála verða aukin um einn milljarð á ári til ársins 2031.

„Þessi áætlun er ekki að ráðast að rót vandans. Þau eru upptekin af skuldahlutfalli ríkisins til skamms tíma í stað þess að ráðast að rótinni sem er atvinnuleysið sem ber ábyrgð á 80 prósent af halla síðasta árs,“ sagði Logi Einarsson í dag.

„Við þurfum að ráðast í miklu meiri fjárfestingar, atvinnuskapandi verkefni og við þurfum að taka okkur tíma til að komast út úr þessu.“

En er það ekki einmitt það sem ríkisstjórnin segist vera að gera?

„Nei, hún er með fókusinn á skuldahlutfallinu, talar reyndar um það að hún yrði hugsanlega að grípa til tekjubætandi aðgerða. Hvað þýðir það? Það þýðir niðurskurður eða það þýða skattahækkanir.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV