Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stórt verkefni að skylda alla í sóttvarnahús

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráða þarf fjölda starfsmanna og auka við húsakost verði allir ferðamenn sem koma til landsins skyldaðir til að dvelja í sóttvarnahúsum eins og sóttvarnalæknir leggur til. Sjúkratryggingar vilja nota hótel í nágrenni Keflavíkurflugvallar sem sóttvarnahús.

Í minnisblaði sem sóttvarnalæknir skilaði til heilbrigðisráðherra um breyttar sóttvarnaaðgerðir er lagt til að þeir sem koma til landsins verði skyldaðir til að dvelja í sérstöku húsnæði meðan á sóttkví eða einangrun stendur og að þar verði öflugt eftirlit. Þar segir að ástæðan fyrir þessari tillögu sé að mörg tilvik séu um að fólk virði ekki sóttkví og það hafi leitt til lítilla hópsýkinga.

Úr minnisblaði sóttvarnalæknis: Ég legg til að víðtækt samráð verði haft við landamæraverði, lögreglu, almannavarnir, SÍ og Rauða Krossinn um hvort hægt sé að skylda flesta/alla þá sem hingað ferðast til að dvelja í sérstöku húsnæði á meðan sóttkví/einangrun stendur. Í þessu húsnæði yrði komið á öflugu eftirliti með að allir haldi þær leiðbeiningar sem í gildi eru. Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er meðferðarheldni í sóttkví hjá þeim sem hingað koma ábótavant. Þetta hefur leitt til frekari smita og jafnvel til lítilla hópsýkinga sem auðveldlega hefðu getað þróast í stærri faraldra

Nú er eitt sóttvarnahús opið, Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg og það er rekið af Rauða krossinum sem var falið þetta verkefni í upphafi kórónuveirufaraldursins. Ljóst er að fjölga þarf húsum og nú skoða Sjúkratryggingar Íslands skoða hótel í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Frá Sjúkratryggingum fengust þær upplýsingar að gerðir verði samningar um notkun þeirra í að minnsta kosti þrjá mánuði og að starfsfólk viðkomandi hótela muni starfa þar. 

Gylfi Þór Þorsteinsson er forstöðumaður Farsóttarhúss. „Ef þessi farsóttarhús sem opnuð verða, verða með sama formi og við höfum haft hér, þá er þetta heljarinnar verk. Því að eins og staðan er í dag eru um 1.100 manns í skimunarsóttkví hér á landi. Þá má kannski draga þá ályktun sem svo að helmingur þeirra hafi verið að koma frá rauðum löndum og jafnvel fleiri. Og það eru kannski 5-600 manns sem hafa verið að koma undanfarna vikuna frá rauðum löndum. Þannig að þetta er kannski svolítið meira en að segja það á einu bretti,“ segir Gylfi.

Gylfi segir ljóst að bæta þyrfti við verulegum fjölda starfsfólks. Í Farsóttarhúsi sé mörgum verkefnum sinnt. „Það er ekki bara það að það þurfi að færa þessu fólki mat. Heldur þarf líka að passa upp á að þau séu ekki að umgangast hvert annað upp á að smit sé í hópnum, að það sé ekki að dreifast. Það þarf að sinna þessu fólki andlega og jafnvel félagslega af fólki sem er fært um það. Og svo þarf auðvitað að vera öryggisgæsla í þessum húsum ef eitthvað skyldi út af bregða. Þetta gætu verið einhverjir tugir, jafnvel hundruðir starfsmanna,“ segir Gylfi.