Óvenjulegt hraun sem kemur djúpt að

23.03.2021 - 20:10
Hraunið sem kemur upp í gosinu í Geldingadölum er frábrugðið hrauni sem runnið hefur á sögulegum tíma á Reykjanesskaganum. Þetta sýna efnagreiningar vísindamanna. Kvikan kemur líka úr miklu meira dýpi en í þeim gosum sem við þekkjum.

Áður en eldgosið hófst sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur að eldgos við Fagradalsfjall gæti haft keðjuverkandi áhrif á önnur eldvirk svæði á Reykjanesskaga og undanfarna daga hefur borið á skjálftavirkni bæði á Reykjanestánni og á Krýsuvíkursvæðinu.

Páll ræðir eldgosið og mögulega þróun þess í Kastljósi kvöldsins ásamt Sæmundi Ara Halldórssyni, jarðefnafræðingi við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.