Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óbreytt gosvirkni en jarðskjálftum fækkar enn

Laugardagskvöld 20. mars 2021 við eldstöðvarnar í Geldingadölum í Fagradalsfjalli. Margir lögðu leið sína á fjallið til að berja gosið augum. Rúnar Ingi tók þessar myndir.
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Enn gýs í Geldingadölum, þar sem hraun hefur nú runnið í rúma þrjá sólarhringa. Er ekki annað að sjá en að svipaður gangur sé í gosinu og verið hefur, að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfæðings á Veðurstofu Íslands. Enn dregur úr skjálftavirkni og gangi veðurspár eftir ætti gosþyrstu göngufólki ekki að verða skotaskuld úr því að svala þeim þorsta sínum í dag, með því að rölta nýstikaðan slóðann að gosstöðvunum.

Mun minni skjálftavirkni

Skjálftavirkni hefur minnkað til muna á umbrotasvæðinu við Fagradalsfjall frá því sem mest var og eru skjálftarnir bæði færri og minni en áður. Í gær mældust þar um 160 skjálftar og hafa þeir ekki verið færri á einum sólarhring frá upphafi hrinunnar, sem hófst 24. febrúar.

Stærsti skjálfti gærdagsins var 2,9 að stærð. Sá varð klukkan 1.40 aðfaranótt mánudags og átti upptök sín um kílómetra suðvestur af Keili. Farið verður í vísindaflug yfir gosstöðvarnar í dag og fæst þá betri mynd af hraunflæðinu og kraftinum í gosinu.

Viðrar vel til eldgsosa 

Veðurspá gerir ráð fyrir þokkalegasta veðri við gosstöðvarnar í dag, þar sem útlit er fyrir tiltölulega hæga vestlæga eða breytilega átt með stöku éljum og hita allt að fimm stigum fram á kvöld, en þá gæti farið að frysta.

Félagar í björgunarsveitinni Þorbirni luku í gær við að stika hagkvæmustu gönguleiðina frá Suðurstrandarvegi að gosstöðvunum, svo nú er ekkert í veginum fyrir þau sem berja vilja gosið augum. Þó er varað eindregið við því að fara niður í Geldingadalina vegna gasmengunar, sérstaklega þegar vindur er með minna móti eins og útlit er fyrir í dag.