Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvers vegna svitnum við og hvaðan koma bólur eiginlega?

Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Kynþroskinn/Pubertet

Hvers vegna svitnum við og hvaðan koma bólur eiginlega?

23.03.2021 - 13:52

Höfundar

Húðin er eitt af því sem breytist hjá ungu fólki á kynþroskaskeiði. Allt í einu birtast bólur og sviti og það getur valdið áhyggjum. Fílapenslar og svitalykt eru bara eðlilegur hluti af líkamsstarfseminni á þessum árum eins og farið er yfir í sjónvarpsþáttunum Kynþroskinn.

Kynþroskaskeiðið er auðvitað ekki eins hjá öllum en flestir fara að finna svitalykt og fá nokkrar bólur. En hvers vegna svitnum við og hvaðan koma bólurnar? Sökudólgarnir eru tvenns konar kirtlar, svitakirtlar og fitukirtlar, og hormónið testósterón sem fær kirtlana til að stórauka framleiðslu á svita og húðfitu. 

Áður en við förum á kynþroskaskeið framleiðir húðin svita til þess að kæla okkur niður. Þegar svitinn gufar upp lækkar líkamshitinn. Ef það myndi ekki gerast ættum við hættu á að ofhitna og deyja. Þess vegna er húðin þakin svitakirtlum sem auka framleiðslu sína þegar kynþroskaskeiðið hefst. Stærstur hluti svitans er enn vatn og salt sem lyktar ekki en sumir svitakirtlar, til dæmis þeir sem eru í handarkrikunum, verða virkari og þegar bakteríurnar á húðinni fara að brjóta svitann niður myndast hin klassíska svitalykt. Aðrir staðir þar sem þetta getur gerst eru nafli, eyru, nári og geirvörtur. 

Bólur koma líka oftar en ekki fram á kynþroskaskeiðinu og ástæðan fyrir því er einföld. Testósterónið lætur húðina framleiða meiri húðfitu. Undir húðinni eru fitukirtlar sem framleiða þessa fitu. Venjulega seytlar hún úr kirtlunum út á húðina til þess að hún ofþorni ekki. Þegar fitukirtlarnir fara hins vegar á fullt, eins og þeir gera á kynþroskaskeiðinu, geta þeir stíflast þannig að fitan kemst ekki út og safnast saman undir húðinni. Það kallast fílapensill. Ef bakteríur komast í hann getur hann stækkað umtalsvert, fyllst af grefti og orðið að risabólu. 

Bólur þýða ekkert endilega að þú sért að borða óhollt eða ekki að þrífa húðina nógu vel. Líklegast eru það genin þín sem ráða því hvað þú færð mikið af bólum. Ef þú telur þig hins vegar vera með óvenjulega miklar bólur er best að leita til læknis því það eru til lyf og ráð sem gætu hjálpað til. Þegar bólurnar birtast er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að kreista þær ekki til að koma í veg fyrir ör. 

Kynþroskinn er á dagskrá öll mánudagskvöld á RÚV. Hægt er að horfa á síðasta þátt hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Typpið fær nýtt hlutverk