Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Þetta fólk er ekki komið hingað til að vera í sóttkví“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Lögreglan á Norðurlandi vestra gómaði um helgina tvo erlenda ferðamenn við brot á reglum um sóttkví. Það vakti athygli lögreglu að ferðamennirnir áttu bókað flug til síns heimalands degi eftir að niðurstaða seinni skimunar átti að liggja fyrir. Mennirnir hafa hvor fyrir sig greitt 200 þúsund króna sekt. Yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli vill herða reglur um stutta dvöl.

Þeir höfðu farið í fyrri skimun við komuna til landins eins og reglur kveða á um, en haldið svo til í sumarbústað. Þrátt fyrir að vera í sóttkví fóru þeir í ferðir út frá bústaðnum í bíl og meðal annars á skíði, þó ekki meðal almennings.

Vill herða reglur um stutta dvöl

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segir í samtali við fréttastofu að lögreglan á landamærunum fylgist sérstaklega með fólki sem ætlar að dvelja hér á landi í svo stuttan tíma: „Við höfum sent lögreglu á þeim stað sem fólk er að fara upplýsingar um þetta fólk. Og þá hefur lögreglan farið og athugað sérstaklega hvort það sé þar,“ segir hann. „Það segir sig sjálft að þetta fólk er ekki komið hingað til að vera í sóttkví.“

Hann bendir á að lögreglan á landamærunum hafi kallað eftir hertum reglum og eftirliti með fólki við komuna til landsins, ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. „Við erum að ýta á það núna ásamt sóttvarnalækni að reglum verði breytt þannig að þegar við sjáum svona getum við keyrt fólk beint í sóttvarnahús þar sem það er undir eftirliti. Við Þórólfur höfum rætt saman undanfarna daga og hann er sammála okkur um þetta, og að það verði þá jafnvel opnað sóttvarnahús nálægt flugvellinum,“ segir hann.