Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stika gönguleið að gosinu í dag

22.03.2021 - 14:39
Mynd: Rafal Kozaczka / aðsend mynd
Til stendur að stika stystu og öruggustu gönguleið að gosinu í dag og gera bílastæði við upphaf leiðarinnar. Fólk getur notað þá leið þegar svæðið er opið. Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið í dag vegna gasmengunar.

Gönguleið frá Svartsengi alls ekki góð

Lögreglan á Suðurnesjum segir að verið sé að athuga besta staðinn í grennd við Ægissand á Suðurstrandarvegi til að stika leið sem liggi í Nátthagakrika og þaðan inn að Geldingadölum.

„Fólk var að leggja á Grindavíkurvegi og planinu við Svartsengi, og sú gönguleið er bara alls ekki nógu góð og er erfið og það sköpuðust hættur yfir því,“ sagði Hjálmar Hallgrímsson, hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Svæðið er lokað vegna gosmengunar

„Við viljum beina fólki að fara á Ægissand, ég veit að það voru bílastæðavandræði þar, en það er stysta og besta aðgengið að gosinu. En ég ítreka að svæðið er lokað eftir að almannavarnir tóku ákvörðun um það.“

Hann ítrekar að vegslóðar inn að gosinu séu einkavegir á landi í eigu Hrauns og Ísólfsskála og því aðeins fyrir björgunaraðila. Aðrir sem aka þar um eru í óleyfi. 

Vegagerðin mun annast stikunina en Suðurstrandarvegur er enn lokaður allri almennri umferð á milli Grindavíkur og gatnamóta við Krýsuvíkurveg vegna sigs sem hófst í jarðskjálftahrinunni.