Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögregla og Landsbjörg: Snúið heim, strax!

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Veðurstofan og lögreglan á Suðurnesjum vara við mjög slæmu veðri á gosstöðvunum í Geldingadölum á Reykjanesskaga. Er fólk á leið þangað hvatt til að snúa við strax. Skilaboð þessa efnis voru send í farsíma fólks á ferli á þessum slóðum. Steinar Þór Kristinsson, í aðgerðastjórn Landsbjargar í Grindavík, tekur í sama streng. Hann segir veður orðið arfaslæmt og óttast hið versta fyrir nóttina. Þegar er byrjað að skima eftir fólki í hrakningum og verið að fjölga mjög í hópi björgunarsveitarfólks.

„Staðan er bara að versna. Það er vaxandi veður og það er komin úrkoma og spáð bara arfavitlausu veðri hérna um eitt leytið og það er bara að bresta á,“ sagði Steinar Þór í samtali við fréttastofu um eittleytið og hvatti fólk á leið til gosstöðvanna til að snúa við, tafarlaust. „Við erum nú þegar farin í eftirgrennslan eftir fólki hérna úti í hrauni og við viljum bara fá alla í bíla og heim.“ 

Steinar segir þó nokkuð af bílum enn stopp úti í kanti á þeim stöðum sem gosskoðunarfólk hefur helst verið að leggja á, þannig að draga megi þá ályktun að enn sé töluvert af fólki í kringum gosstöðvarnar. Veður sé þegar orðið mjög slæmt og eigi bara eftir að versna. 

Búast við hinu versta

„Það er hávaðarok hérna og úrkoma. Það er talað um allt að 15 metra á sekúndu og það er mikil úrkoma og kalt, alveg niður í tvær gráður. Ef fólk er ekki þeim mun betur búið, þá lítur þetta illa út.“

Spáð er svipuðu veðri fram eftir nóttu og því er verið að kalla út aukamannskap, segir Steinar Þór. Þegar eru á milli 50 og 100 björgunarsveitarmenn á vettvangi, og þeim á enn eftir að fjölga. enda búist menn einfaldlega við hinu versta.

„Það er bara verið að fara í stórt útkall hérna á svæðunum í kring og við bara búumst við hinu versta. Staðan er bara orðin þannig,“  segir Steinar Þór.

 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV