Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Látinna af völdum COVID-19 minnst í Tékklandi

22.03.2021 - 14:18
Mynd: AP / AP
Kirkjuklukkum var hringt í dag um allt Tékkland til að minnast þeirra sem hafa látist í COVID-19 plágunni. Í dag er einmitt eitt ár frá fyrsta andlátinu í Tékklandi af hennar völdum. Einnig var fólk beðið um að minnast hinna látnu með einnar mínútu þögn.

Félagsskapur tékkneskra stjórnarandstæðinga krítaði tuttugu þúsund krossa á torg í gamla bænum í Prag til að vekja athygli á ástandinu. Félagið sem gæti kallast Milljón augnablik lýðræðis sakar stjórnvöld um að hafa ekki gert nóg til að hindra útbreiðslu veitunnar. Því séu dauðsföll í Tékklandi mun fleiri en þau hefðu orðið ef þau hefðu staðið sig í stykkinu.

Um það bil 25 þúsund manns hafa dáið af völdum COVID-19 í Tékklandi til þessa. Þeir eru hvergi í heiminum fleiri miðað við höfðatölu, samkvæmt gögnum AFP fréttastofunnar.