Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Heimir Már býður sig fram til formanns BÍ

22.03.2021 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: BÍ
Heimir Már Pétursson fréttamaður gefur kost á sér til formanns Blaðamannafélags Íslands. Aðalfundur félagsins fer fram í lok apríl. Hjálmar Jónsson, sem hefur gegnt embætti formanns og framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 2010, hefur tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér áfram.

„Eins og þið vitið öll hefur alla tíð ríkt mikil óvissa um framtíð íslenskra fjölmiðla sem á undanförnum örfáum árum og áratugum hafa tekið miklum breytingum. Á þeim rúmu þrjátíu árum sem liðin eru frá því ég hóf störf sem blaðamaður á Þjóðviljanum árið 1988 hafa breytingarnar raunar orðið svo miklar að nánast er hægt að tala um aðra veröld þá og nú,“ segir í tilkynningu Heimis Más á vef Blaðamannafélagsins. Nú skipti máli að standa vörð um störf blaðamanna og vandaða blaðamennsku enda sé víða herjað og þrengt að störfum þeirra og þeirra starfsumhverfi, bæði af hálfu opinberra aðila og hagsmunaaðila.

Heimir Már segist vilja verja tjáningarfrelsið, málfrelsið, réttindi blaðamanna til að sinna störfum sínum hvar sem er á vettvangi samfélagsins og standa vörð um kjör félagsfólks, auk þess sem hann telur brýnt að verja sjálfan tilverugrundvöll frjálsrar fjölmiðlunar.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV