„Hann var ekki bara vinur, við erum fjölskylda“

Mynd:  / 

„Hann var ekki bara vinur, við erum fjölskylda“

22.03.2021 - 12:04

Höfundar

„Við lentum í aðstæðum sem við hefðum aldrei getað ímyndað okkur að lenda í: að missa náinn fjölskyldumeðlim í höndunum á okkur,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Árleg veiðiferð félaganna árið 2007 breyttist í hrylling þegar afar kær vinur hans varð bráðkvaddur í ferðinni. Það er atburður sem á eftir að sitja ævilangt í honum og átti stóran þátt í að kveikja hjá honum brennandi áhuga á réttindabaráttu.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttafélagsins VR, er mikill útivistar- og hjólreiðagarpur. Hjólreiðar eru hans leið til að tæma hugann og tengjast náttúrunni. „Ég reyndi þessa hefðbundnu leið þar sem þú setur puttana saman og hummar en það gekk ekki alveg. En þetta er mín hugleiðsla, að fara út á hjólinu,“ segir hann. Ragnar Þór var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hann talaði meðal annars um ást sína á Breiðholti og dálæti á starfinu, fráfall góðs vinar síns og kvíða sem hann glímir við eftir óvægna fjölmiðlaumfjöllun.

Sem unglingur hafði hann takmarkaðan áhuga á pólitík og vissi lítið um verkalýðshreyfinguna og starfsemi hennar. En baráttuandinn fór fljótt að láta á sér kræla. „Kannski hefði maður fengið einhverjar greiningar sem barn því ég er pínulítið manískur að eðlisfari, lærði til dæmis snemma á hljóðfæri og er sjálflærður á trommur og gítar.“

Ragnar Þór gerir ekkert með hangandi hendi, ef hann ætlar sér eitthvað fer hann alla leið. „Ég hellti mér í hlutina og það er kannski það sem einkennir mann þegar maður fer í þetta starf. Ég er mjög fylginn mér að eðlisfari og það getur verið mjög gott í þessu starfi.“

Þurftu að horfast í augu við hryllinginn

Ragnar Þór var í útivist með félögum sínum þegar skelfilegur atburður átti sér stað, atburður sem má segja að hafi ýtt honum alla leið í réttindabaráttunni. Þeir félagarnir fóru í árlega veiðiferð og voru staddir við Eystri-Rangá haustið 2007. Með í för var vinur hans sem varð bráðkvaddur í ferðinni aðeins 35 ára að aldri. „Hann var ekki bara vinur, við erum fjölskylda. Hann er giftur frænku minni og þarna var ég með pabba mínum og við fjórða mann.“

„Við lentum í aðstæðum sem við hefðum aldrei getað ímyndað okkur að lenda í, að missa þarna náinn fjölskyldumeðlim í höndunum á okkur.“ Mennirnir reyndu endurlífgun sem gekk ekki eftir og þurftu að horfast í augu við hryllinginn. „Það er svo mikill missir þegar þú ert með einhvern svona nátengdan þér.“

Áttaði sig á að lífeyrissjóðirnir væru ekki það bakland sem hann hélt

Upp frá þessu fór af stað atburðarás sem opnaði augu hans fyrir því að lífeyrissjóðirnir væru ekki vera það bakland sem hann taldi þá vera. „Upp frá því fer ég að hella mér í að skoða lífeyrissjóðakerfið,“ segir hann. „Mögulega eftir á að hyggja hefur þetta verið mín leið til að takast á við áfallið. Það er kannski helsta skýringin að þetta hafi verið meira til að takast á við þetta áfall en eitthvað annað.“

Áður en hann vissi af var hann byrjaður að senda tölvupósta um allt, til þeirra sem málið varðaði, og krefast skýringa. Fljótt fóru honum að berast svör og það jók neistann. „Ég var mjög hissa því þá sá ég að ég fann kraftinnn við að skrifa,“ segir Ragnar Þór sem fram að þessu hafði ekki haft mikinn áhuga á rituðu mál. „Ég skrifaði ekki með greinaskilum, var lélegur í stafsetningu og lélegur námsmaður yfir höfuð því ég hafði ekki áhuga á því. En þarna fæ ég þetta til baka og þá kviknar þessi neisti.“

Brátt var hann byrjaður að skrifa um málin bloggfærslur á moggablogginu svokallaða, aðeins 34-35 ára, á árunum 2007-2008. Fyrr en varir er hann farinn að skrifa líka greinar í blöðin.

Hoppaði ekki í djúpu laugina heldur í sjóinn

Skrif Ragnars og skoðanir hans breiðast út og áhugi á að heyra hans hlið á málunum eykst. Honum er fyrst boðið í þáttinn Silfur Egils árið 2008 og sú reynsla er honum minnisstæð. „Þetta var fyrsta viðtalið sem ég fór í og það var í beinni í Silfrinu sem þá var bara, þjóðin var límd við skjáinn,“ segir hann. „Ég hoppaði ekki bara út í djúpu laugina heldur sjóinn.“

Nóttina fyrir viðtalið segist honum hafa liðið sem hann væri með magann fullan af múrsteinum. Hann var kvíðinn en tókst að halda ró sinni út á við. „Ég var gríðarlega stressaður, en fólki sem horfði fannst ég bara rólegur og ég reyni að vera alltaf rólegur í þeim viðtölum sem ég fer í og nálgast hlutina yfirvegað,“ segir Ragnar Þór sem síðan hefur mætt í ógrynni af viðtölum og orðinn alvanur.

Ekkert stuð að hata mann sem ekki reiðist

Hann er ekki fljótur upp og reiðist ekki auðveldlega. Hann kveðst ekki langrækinn og segist ekki eiga óvini. „Mögulega líta einhverjir á mig sem óvin en ég á enga óvini og óska engum neins ills. Því held ég að það sé mjög leiðinlegt að hata mig. Ekkert stuð,“ segir hann og hlær.

Fékk kvíðakast í beinni útsendingu

Ragnar Þór var endur­kjörinn formaður VR fyrr í mánuðinum og fyrir kosningarnar var hann í viðtali á Rás 2 þegar ljóst varð að honum var farið að líða illa. Hann byrjaði að ofanda og hann sundlaði.

„Það var óþægileg tilfinning,“ rifjar hann upp. Síðan hann missti vin sinn árið 2007 hefur hann verið duglegur að fylgjast með hjartanu og heilsufari, hann hreyfir sig mikið og hafði ekki á tilfinningunni að það væru neinir líkamlegir brestir að gera vart við sig. „Fyrst hélt ég að þetta hefði bara verið of mikið kaffi og ekki nægilega mikið vatn en svo komst ég að því að þetta væri væntanlega vottur af kvíðakasti sem ég fékk í þessu viðtali. Mér fannst það skrýtið því þetta er mín sterkasta hlið - að koma fram.“

Þjófkenndur á forsíðu Fréttablaðsins

Kvíðakastið segir hann að megi rekja til umfjöllunar Fréttablaðsins þar sem hann var bendlaður við veiðiþjófnað í Holtsá á landi Seðlabankans fyrr í vetur. „Ég var þjófkenndur á forsíðu stærsta blaðs landsins með mjög óvægum hætti, þar sem fréttamaður hringdi í mig daginn áður og ég auðvitað kannaðist ekkert við það mál. Vísaði honum á landareigandann og gaf upp símanúmerið. Hann sagðist ætla að staðfesta að ég kæmi ekkert nálægt þessu máli, en það er ekki gert og þetta er bara sett svona fram.“

Þegar Ragnar Þór sá fréttina kveðst hann hafa strax haft samband við lögregluna á Suðurlandi sem hafi brugðist fljótt við og sent frá sér yfirlýsingu þar sem staðfest var að fréttin ætti ekki við rök að styðjast. Fleiri tóku í sama streng. „Sömuleiðis voru fleiri tilbúnir að stíga fram, eins og landareigendur og fleiri, þannig að þetta var byssukúla sem fór fram hjá. En ef ég hefði ekki fengið þessa staðfestingu frá lögreglunni, eða getað hreinsað þessar ásakanir af mér með svona staðfestum hætti, hefði þetta verið bara orð á móti orði. Ég hef aldrei upplifað svona áður.“

Fann fyrir ugg í hvert sinn sem blaðið kom inn um lúguna

Þegar dagblað eða póstur laumaði sér inn um lúguna hjá honum næstu daga eftir þetta fann hann fyrir miklum kvíða. Hann kveðst fram að þessu hafa átt í góðum samskiptum við fjölmiðla og hann hefur reynt að vera til taks og svara fyrirspurnum þeirra, líka þegar hann er í fríi. Það sé hvimleitt að líða eins og hann geti illa treyst fjölmiðlum eftir þessa reynslu. „Það myndi ég segja að sé orsakavaldur þess sem gerðist í þættinum.“

Gæti þetta ekki án eiginkonunnar

Atburðarásin lagðist þungt á eiginkonu Ragnars Þórs, Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur og elstu börn þeirra en hann naut mikils stuðnings á heimilinu og á meðal sinna nánustu. „Mitt nærumhverfi, vinirnir og konan mín, þau eru minn helsti bakhjarl í þessu,“ segir hann. Guðbjörg Ingunn hefur staðið þétt við bakið á eiginmanninum. „Ég hugsa að ég gæti þetta ekki án hennar.“

Þéttur vinahópur úr Breiðholtinu

Þau hjónin eru samstarfsmenn og afar samstíga í leik og starfi en hann segir líka mikilvægt fyrir þau að geta verið í sundur. Hann á stóran vinahóp sem hann kynntist sem drengur í Breiðholtinu og hann hefur þekkt síðan hann man eftir sér. „Hópurinn hefur alltaf haldið tengslin og það er kannski það sem útskýrir ást mína á Breiðholti,“ segir hann. Þar sé auk þess allt í göngufæri, verslun, bókasafn og heilsugæslan og nóg um að vera. Þeirrar þjónustu nýtur hann líka í Árbænum, en það besta við að búa þar sé þó útsýnið yfir Breiðholt.

Vakinn og sofinn yfir vinnunni

Línan á milli þess að vera í vinnunni og að vera í fríi er alls ekki skýrt dregin í lífi hans. Hann er alltaf með símann á sér og alltaf til taks til að sinna vinnutengdum verkefnum eða að fara í viðtöl. „Það eru allir búnir að sætta sig við það í kringum mig sem betur fer. Ef við förum í frí, hvort sem það er í útilegu eða hvað sem við erum að gera, er síminn alltaf við höndina,“ viðurkennir hann. „Ég er vakinn og sofinn yfir þessu og kemst aldrei með hausinn frá.“

Brennur fyrir starfinu

Hann fagnar því hve skemmtilegt starf hann vinnur og hann hefur enn brennandi áhuga og ástríðu fyrir því. „Mér finnst þetta svo gaman og gefandi og forréttindi að fá að vinna við að gera samfélaginu gagn. Mér finnst þetta ekki endilega neikvætt heldur lýsa því hve mikið ég brenn fyrir starfinu.“ En þó fjölskyldan sýni því skilning að hann sé með hugann við vinnuna hefur hann fengið samviskubit. „Það sem er verst er ef þú ert ekki með hugann við það sem þú ert að gera þegar það koma saman fjölskyldan og börnin, ef það er eitthvað mikið í gangi og ég er bara með hausinn annars staðar,“ segir hann. „Það er það versta, og verst fyrir þau, og það eru stundirnar þegar ég fæ samviskubit og móral.“ Hann leggi sig fram við að finna jafnvægi.

Hyggst ekki gegna starfinu lengur en í átta ár

Ragnar kveðst búa yfir þeim krafti og hraða sem formaður í stóru stéttarfélagi þurfi að hafa, en að hann eigi ekki eftir að endast að eilífu. „Ég gaf mér fyrirfram að vera ekki í lengur en átta ár, núna er ég búinn að vera í fjögur og verð í tvö ár í viðbót. Hvort ég fari síðan áfram og reyni að klára þessi átta ár sem ég lagði upp með í upphafi veit ég ekki, það er oft snemmt að segja,“ segir hann. „En ég verð ekki lengur en átta ár.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Ragnar Þór Ingólfsson í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Innlent

Ragnar Þór endurkjörinn formaður VR