Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hæðist að sóttvörnum og kallar ríkisstjóra „harðstjóra“

epa09088564 Brazilian President Jair Bolsonaro gestures to supporters who are celebrating his 66th birthday outside Alvorada Palace in Brasilia, Brazil, 21 March 2021. Bolsonaro is celebrating his 66 birthday, as he is politically under pressure for the coronavirus pandemic management.  EPA-EFE/JOEDSON ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu er við sama heygarðshornið og heldur áfram að fordæma og hæðast að sóttvarnaaðgerðum yfirvalda í hinum einstöku ríkjum landsins. Forsetinn átti afmæli í gær og ávarpaði stuðningsfólk sitt af því tilefni. Notaði hann tækifærið til að kalla þá ríkis- og borgarstjóra sem innleitt hafa sóttvarnareglur „harðstjóra." Brasilía er það land sem næst verst hefur farið út úr heimsfaraldrinum, á eftir Bandaríkjunum, og ekkert lát er á hörmungunum.

Vill opna landið en farsóttin geisar enn af miklum þunga

Bolsonaro sagði ríkisstjórn sína þegar hafa gert allt sem hægt væri að gera til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar og nú væri kominn tími á að opna landið. Farsóttin geisar hins vegar enn af fullum þunga í Brasilíu og hefur raunar aldrei verið skæðari en undanfarnar vikur.

Í liðinni viku féllu tvö dapurleg met í landinu. Á þriðjudag dóu þar fleiri úr COVID-19 en nokkru sinni fyrr á einum sólarhring, eða 2.841, og á miðvikudag greindust fleiri nýsmit í landinu en nokkru sinni á einum sólarhring, eða rúmlega 90.300 manns. Mjög er farið að sneiðast um gjörgæslurými sjúkrahúsa, því í 25 af 27 ríkjum Brasilíu eru yfir 80 prósent þeirra í notkun - í lang flestum tilfellum vegna COVID-19. 

Sjá einnig: Farsóttin aldrei skæðari í Brasilíu en nú

Vegna þessa hafa nú víða verið innleiddar fjöldatakmarkanir á ný og ýmist settar strangar reglur eða ákveðin tilmæli um grímunotkun og samskiptafjarlægð. Þar sem ástandið er verst hefur líka verið gripið aftur til þess að fyrirskipa misjafnlega strangt og víðtækt útgöngubann. Allt er þetta gert með það fyrir augum að minnka líkur á smiti. 

Um 12 milljónir manna hafa greinst með COVID-19 í Brasilíu og rúmlega 294.000 dáið úr sjúkdómnum svo vitað sé.