Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enginn skipverjanna er alvarlega veikur

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vakt er við súrálsflutningaskip sem lagðist að bryggju í Reyðarfirði í fyrradag, eftir að kórónuveirusmit greindust hjá skipverjum, til að gæta þess að enginn fari um borð sem ekki á þangað erindi. Tíu af 19 manna áhöfn hafa greinst með veiruna, óvíst er hvað afbrigði hennar um ræðir, en beðið er niðurstöðu raðgreiningar.

Skipstjóri greindi frá því við komu skipsins að sjö skipverjar væru veikir. Að fenginni einkennalýsingu og öðrum faraldursfræðilegum þáttum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni, sem náðist undir kvöld í fyrradag.

Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Austurlandi segir í samtali við fréttastofu að skipið enginn sé mikið veikur, læknir og hjúkrunarfræðingur hafi farið um borð í gær en enginn hafi hingað til þurft á læknisaðstoð að halda.  Í tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér í gær segir að ekki sé talin hætta á að smitið dreifi sér. Kristján segir að það mat hafi ekki breyst.

Að sögn Kristjáns er skipið skráð á Marshall eyjum og var að koma frá Brasilíu.