Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja heilsugæslustöð í Suðurnesjabæ

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ vilja fá heilsugæslustöð í bæjarfélagið. Mörg ár eru síðan heilsugæslustöðvum þar var lokað og þurfa íbúar að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Reykjanesbæ.

Í Suðurnesjabæ eru byggðakjarnarnir Garður og Sandgerði. Á árum áður voru heilsugæslustöðvar á báðum stöðum en þeim var lokað. Bæjaryfirvöld hafa unnið að málinu í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hafa síðustu misseri þrýst á ríkið að bæta úr. „Þetta er tæplega 3.700 manna sveitarfélag og það er engin þjónusta veitt hérna í sveitarfélaginu. Það verður að sækja alla heilbrigðisþjónustu á Heilbrigðisstofnunina í Reykjanesbæ,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ.

Byggð voru ráðhús í bæði Sandgerði og Garði töluvert áður en umræður um sameiningu sveitarfélaganna hófust af alvöru og á báðum stöðum var gert ráð fyrir heilsugæslu.

Bæjaryfirvöld hafa verið í samskiptum við heilbrigðisráðuneytið vegna málsins og hafa óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra. Er bæjarstjórinn bjartsýnn á að heilsugæsla sé í sjónmáli? „Að sjálfsögðu, það þýðir ekkert annað. Maður er ekki að standa í baráttu fyrir málstað án þess að vera bjartsýnn á að ná árangri. Ég trúi nú ekki öðru en að við náum árangri í þessu máli því að þetta er svona grundvallar þjónusta fyrir íbúana og samkvæmt lögum eiga íbúarnir rétt á þessari þjónustu. Þannig að við bara fylgjum því eftir og vonandi tekst okkur að ná árangri í því.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir