Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Var í tjaldi við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Mikill fjöldi fólks lagði leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum í nótt, mis vel búið. Lögregla og björgunarsveitir höfðu því í nógu að snúast. Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sem er í aðgerðastjórn, segir að nóttin hafi gengið furðu vel miðað við aðstæður. 

„Björgunarsveitarmenn þurftu að ferja örmagna einn einstakling sem var aðframkominn af þreytu, bleytu og veðrið var nú ekki að hjálpa til þarna og þetta slapp mjög vel og svo Landsbjargarfólk labbaði hérna alla helstu stíga, svona gönguleiðir að gosstöðvunum til þess að kanna hvort að fólk væri í einhverjum erfiðleikum á þessum gönguleiðum og þeir tóku upp einhverja þreytta, ferjuðu þá til Grindavíkur annars gekk þetta bara furðu vel,“ segir Gunnar. 

Um klukkan sjö í morgun voru um sextíu bílar við Grindavíkurveg og um hundrað við lokun á Suðurstrandarvegi. Gunnar segir því ljóst að fólk hafi verið enn á ferð þegar mikil þoka skall á. „Einhverjir hafa verið þarna í nótt og einhverjar fréttir bárust af manni sem var í tjaldi þarna í góðu yfirlæti þannig að það er allur gangur á þessu.“

Sumir hættu sér of nálægt gígnum og segir Gunnar að rætt hafi verið við fólk og það hvatt til að færa sig fjær. „En það er mjög erfitt að stoppa fólkið þarna hins vegar. Það drífur að úr öllum áttum og áður en þú veist af er allt orðið fullt þarna.“ Björgunarsveitir og lögregla hafa verið með mannskap á svæðinu í nótt og verða áfram. Þau reyna að beina fólki frá því sem talið er varhugaverðast. 

Veðrið er ekki eins og best er á kosið, hvasst, blautt og skyggni lítið. Gunnar segir því ljóst að ekki sé gönguveður nema fyrir vana göngugarpa og mjög vel búna, hvað sem verði í dag.