Til skiptis á heilsugæslunni og í hljóðverinu

Mynd: Victor Guðmundsson / RÚV/Landinn

Til skiptis á heilsugæslunni og í hljóðverinu

21.03.2021 - 20:00

Höfundar

Doctor Victor er nafn sem hefur heyrst æ oftar upp á síðkastið. Hann hefur gefið út lög með bræðrunum Ingó Veðurguð og Gumma Tóta, Svölu og fótboltamanninum fyrrverandi Rúrik Gíslasyni og samdi nýlega við Sony. Doctors-viðbótin er ekki bara listamannsnafn því hann er útskrifaður læknir og vinnur á Heilsugæslunni í Efstaleiti. Hans raunverulega nafn er Victor Guðmundsson.

Lagið Sumargleðin kom út sumarið 2019, sló í gegn og þá fór boltinn að rúlla hratt hjá Victori sem var í læknisfræði í Slóvakíu. 

„Ég hef alveg heyrt fólk segja: „Sniðugt nafn! Væri gaman ef þú værir læknir.“ og ég segi: „Jáá, ég er reyndar útskrifaður.“ Og svo öfugt hef ég fengið kannski til mín sjúklinga sem kannast við mig og segja: „Ég hélt að þú værir bara tónlistarmaður!“,“ segir Victor. 

Hann byrjaði að læra á píanó í Tónlistarskóla Kópavogs tíu ára gamall og fór fljótlega að feta sig áfram við að búa til lög. Það var svo úti í læknisfræðinni sem hlutirnir fóru að gerast. 

„Þegar ég var á fyrsta árinu fann ég að þegar ég var undir pressu eða mikið að gera þá leitaði ég alltaf í tónlistina til að róa taugarnar og skapa eitthvað.“

Á öðru árinu var hann svo beðinn um að koma fram og spila tónlistina sína. Fyrst fyrir fáa en svo stækkuðu viðburðirnir og hann spilaði til að mynda í Ungverjalandi og Ísrael. 

„Og þá fann ég bara að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti virkilega að skoða betur.“ Hann fékk að lokum heiðursverðlaun frá bæjarstjóra Martin í Slóvakíu fyrir vel unnin störf í bænum, fyrir að kynna hann og halda alls kyns viðburði. 

„Ég er að vinna meiri tónlist með Rúrik og bræðrunum; Ingó og Gumma, svo er ég líka að vinna með erlendum tónlistarmönnum þannig að það er ýmislegt í pípunum, segir Victor. 

„Hingað til hefur þetta gengið, með mikilli skipulagningu og að nýta allan dauðan tíma til að lesa eitthvað tengt læknisfræðinni eða vinna í tónlistinni. Þannig að ég held að með þessu áframhaldi ætti ég að geta haldið þessum boltum á lofti.“