Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Það vantaði bara gosbjarmann í baksýn”

21.03.2021 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
„Það munaði svo litlu,” segir Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur. Í kvöldfréttum RÚV á föstudag sagðist Benedikt, varfærnislega þó, síður eiga von á gosi við Fagradalsfjall. Einum og hálfum tíma síðar byrjaði að gjósa og vakti þetta töluverða kátínu á internetinu.

Á ekkert von á gosi á næstunni

„Á síður von á eldgosi” var fyrirsögn fréttar RÚV á föstudagskvöld, þar sem jarðeðlisfræðingurinn Benedikt Ófeigsson sagði í viðtali að  jarðhræringakaflanum við Fagradalsfjall væri mögulega, hugsanlega, kannski að ljúka. Hann var þá spurður af fréttamanni hvort líkur á gosi færu þá ekki minnkandi með hverjum deginum. 

„Já, ég myndi segja það,” svaraði Benedikt. „Ég á ekkert von á gosi á næstunni miðað við hvernig þróunin er núna.“ 

#Á síður von á - bólusetningu, lottóvinningi, ástinni

Viðtalið við Benedikt var tekið seinnipart föstudags. Fréttin fór í loftið klukkan 19 og fyrirsögnin „Á síður von á eldgosi” birtist klukkan 19:24 á RÚV.is. Fréttin vakti töluverða athygli og var mest lesin á tímabili. Eldgos hófst við Fagradalsfjall klukkan 20:45, um einum og hálfum tíma síðar. Ekki vildi betur til en svo að fyrirsögnin, með mynd af Benedikt, var í stutta stund staðsett við hliðina á fréttinni: Eldgos er hafið við Fagradalsfjall. Þetta vakti kátínu á samfélagsmiðlum, skiljanlega.

„Á síður von á...” hitt og þetta varð vinsælt á Twitter á föstudagskvöldinu, sem eins konar öfug óskhyggja. Á síður von á að fá bólusetingu, Á síður von á að vinna í lottó, Á síður von á að finna ástina, eru nokkur dæmi sem Twitternotendur birtu til að freista gæfunnar. Á kostnað Benedikts. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þau voru nokkur sem náðu skjáskoti af þessari uppsetningu á vef RÚV á föstudagskvöldinu.

Kannski framlag í Skaupið

Nú í hádeginu á sunnudag segist Benedikt hafa hugsað „Ó boy” þegar hann sá fyrirsögnina við hlið eldgosatíðindanna á vefnum. „Kannski er maður búinn að leggja sitt að mörkum fyrir næsta áramótaskaup,” segir hann. 

„Þetta var aðeins vont að horfa á Gos hafið og mynd af mér við hliðina á með fyrirsögninni: Á síður von á gosi.”

„Þetta var pínu vandræðalegt. En svona er þetta bara. Það vantaði bara gosbjarmann í baksýn á meðan ég var að segja þetta. Það munaði svo litlu.” 

Mælarnir blekktu alla

Benedikt segir allar mælingar samt sem áður hafa bent til þess að það væri ekkert að fara að gjósa. 

„Við vorum að sjá minnkandi merki og þau hafa ekkert aukist aftur. Það er bara mjög lítil jarðeðlisfræðileg virkni sem við sjáum á mælunum okkar. Það eru engar landrekningar, mjög lítil skjálftavirkni. Þannig að þetta var bara sú staða sem ég taldi líklegasta miðað við hvernig það leit út þá.” 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV