Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sprungur gætu opnast fyrirvaralaust

Mynd: RÚV / RÚV
Nýjar sprungur geta opnast fyrirvaralaust á gosstöðvunum í Geldingadölum í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga, að sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. Slíkt hafi gert í gosinu við Fimmvörðuháls. Kvikugangurinn nær frá Nátthaga og norður fyrir gosstöðvarnar.

„Það er ein af þessum hættum í þessu umhverfi sem við verðum að taka með í reikninginn og það er kannski líklegast að það gerist í þessum dal, þarna á þessu svæði,“ sagði Kristín í viðtali í aukasjónvarpsfréttatíma á hádegi í dag. Hundruð göngugarpa hafa lagt leið sína að gosinu síðan það hófst á föstudagskvöld og hafa almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir lýst yfir áhyggjum af fólki sem fer óvarlega við eldsumbrotin. 

„Það sem er óþægilegt í þessu eins og sást í Fimmvörðuhálsgosinu að þá opnast þessar sprungur bara fyrirvaralaust. Við sjáum engin merki á okkar mælum eða neitt. Þannig að fólk verður að fara varlega á þessu svæði.“

Það hrundi úr gígnum í gær að hluta en svo byggðist hann upp aftur upp. Kristín bendir á að það brotni úr hraunbreiðunni og komi spýjur úr henni og fólk verði því að fara varlega.