Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hugsanlegt að hrauntjörn myndist í dalnum

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í viðtali við Kveik.
 Mynd: Freyr Arnarson
Gosið við Fagradalsfjall gæti hætt á morgun, eftir viku eða eftir mánuð. Framleiðnin er svipuð í dag og í gær. Prófessor í eldfjallafræði segir að hugsanlegt sé að hrauntjörn myndist í lægðinni sem hraunið rennur í.

Vísindamenn sammælast um að gosið í Geldingadal sé afllítið, veikt og smátt hraungos. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að ef framleiðnin fer mikið undir þrjá rúmmetra á sekúndu er líklegt að það stöðvist. Það virðist vera svipuð virkni í dag og var í gær. 

„Við vitum það líka að þótt við séum með framleiðni upp á 5 til 10 rúmmetra á sekúndu, þá getur svoleiðis gos staðið áratugum saman. Og besta dæmið um það er gosið á Kílóea fjalli, sem stóð frá árinu 1984 til 2018 og frá og með 1986 var framleiðnin í því gosi 5 - 10 rúmmetrar á sekúndu,“ segir Þorvaldur.

Mörg dæmi um slík gos á Íslandi og nærtækasta dæmið við Fagradalsfjall er Þráinsskjöldur, sem gaus fyrir 14000 árum. Rannsóknir sýna að sum gos á Reykjanesskaganum hafi staðið yfir í nokkur hundruð ár. 

„Nú er ég ekki að segja að þetta sé sviðsmynd sem við erum að horfa á þarna við Fagradalsfjall. Við erum ekki komin nálægt neinu svona. En það sem liggur framundan fyrir okkur er að þessi dalur, Geldingadalur, þarf að fyllast af hrauni og hraunið þarf að verða að minnsta kosti 25 til 30 metra þykkt áður en það fer að flæða út úr dalnum. Þetta gos gæti endað á morgun, eða eftir viku eða eftir mánuð,“ segir Þorvaldur.

Ef gosið heldur áfram, þá fyllir hraunið lægðina. 

„Og þá er hugsanlegt að það myndist hrauntjörn með skorpu á. Og sú skorpa getur verið þunn ef það myndast yfirflæði í hrauntjörninni, þá fer það að sökkva skorpunni og endurnýja hana. Og það getur orðið dálítið skemmtilegt sjónarspil. En það er held ég næsta skrefið þarna, ef gos heldur áfram. Þá myndast hrauntjörn í Geldingadal,“ segir Þorvaldur.

Miklu líklegra að það hætti eftir nokkra daga. Svo getur það tekið sig upp aftur eftir vikur, mánuði eða ár, og ekkert endilega á sama stað.