Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn"

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn"

21.03.2021 - 16:05
Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson segir fáar aðrar hugsanir hafa komist að hjá sér síðustu tvö ár en Ólympíuleikarnir í Tókýó. Þangað ætlar hann sér, en Hilmar hefur líka sett markið á að vera meðal allra bestu sleggjukastara heims. Meðan mótin hafa verið fá, hefur hann tekið vel á því í lyftingum og er meðal annars farinn að taka 300 kíló í réttstöðulyftu.

Hilmar Örn tvíbætti í ágúst eigið Íslandsmet sitt í sleggjukasti sem er nú 77,10 metrar sem var einn besti árangur ársins 2020 í heiminum. Hann segir þó svekkjandi að hafa ekki getað keppt á móti þeim bestu þar sem nánast engin alþjóðleg mót fóru fram.

Hilmar keppti á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum í London 2017 á troðfullum velli. Vegna COVID-19 hafa mótin síðasta árið hins vegar verið fá og lítil og mótstaðan ekki mikil. Hilmar er þó nokkuð vanur því að æfa einn og fáir veita honum alvöru samkeppni á Íslandi. „Það er svo sem bara komið í vana. Þetta er búið að vera svona frá því að ég var ungur. Maður er ekki einn, en er að keppa í litlum hópi hérna heima og það er kannski ekki mikil samkeppni en þá fer maður bara í keppni við sjálfan sig og það er allt í lagi líka,” segir Hilmar.

Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki aðeins sett strik í reikninginn með mótahald heldur einnig með æfingar. „Ég var að vinna með þjálfara frá Slóveníu sem er heims- og Ólympíumeistari í sleggjukasti og núna er þjálfunin bara þannig að hann sendir mér hvað ég á að gera og ég geri það. Það hefði verið gott að komast til Slóveníu og æfa aðeins með honum en þetta er svona næst besta og það er allt í lagi,” segir Hilmar. 

Óvissan hefur einnig verið erfitt enda lítið hægt að skipuleggja næstu mót síðustu mánuði. „Þeir hafa verið erfiðir að vita ekki alveg að hverju maður er að stefna og hvað maður er að gera. En þetta hefur ekki það mikil áhrif á mig. Ég get alltaf keppt og alltaf kastað. Það er aðalmálið,” segir Hilmar.

Einveran á æfingum hentar Hilmari þó ekki illa. „Ég er einfari þegar kemur að æfingum. Mér finnst voða gott að vera einn stundum bara með sjálfum mér. Þannig að þetta hentar mér svo sem vel,” segir Hilmar. 

Þegar við hittum Hilmar fyrir í vikunni var hann á lyftingaæfingu í Kaplakrika. Og þær virðast svo sannarlega vera að skila sér. „Ég er búinn að taka 300kg þrisvar í réttstöðu núna og snara eitthvað um 140kg tvisvar, segir Hilmar sem ætlar þó ekki að skipta yfir í lyftingar. „Nei ekki í bili. Það gengur vel í sleggjunni líka og ég leyfi því að ganga fyrir.”

Hilmar hefur sett stefnuna á að koma á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar og leyfir sér að vera bjartsýnn að komast þangað. „Ég held að það séu töluverðir möguleikar. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn miðað við hvernig æfingar ganga. Svo verður bara annað að koma í ljós. Vonandi getur eitthvað tímabil hafist í apríl eða maí og þá kemur betur í ljós hvernig ég stend,” segir Hilmar.

Þrátt fyrir að síðustu ár hafa verið lituð af Ólympíuleikunum segir Hilmar mikilvægt að muna að önnur mót séu líka mikilvæg. „Það er svolítið mikið núna og búið að vera síðustu tvö árin. Þá er þetta búið að vera aðalmarkmiðið. En svo er gott að minna sig á að það eru fleiri mót en bara Ólympíuleikar. Það eru heimsmeistaramót og Evrópumót. Ég sé fram á að vera í þessari íþrótt allaveganna tíu ár í viðbót þannig að það hljóta að koma góð mót inn á milli,” segir Hilmar.

Markmið Hilmar er að festa sig í sessi á meðal þeirra bestu í heiminum næstu árin. „Ég hef alltaf haft það að markmiði að vera meðal þeirra bestu í allaveganna fimm til sex ár. Það er búið að vera markmiðið mitt frá því ég var ungur. Ég hef svosem aldrei viljað setja stefnuna á verðlaunapall. Ég hef frekar viljað einbeita mér að því að vera á meðal þeirra bestu sem lengst,” segir Hilmar.