Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tyrkland segir sig frá sáttmála gegn kynbundnu ofbeldi

20.03.2021 - 07:20
epa09062502 Women attend a rally marking the International Women's Day in Istanbul, Turkey, 08 March 2021. International Women's Day is celebrated globally on 08 March to promote women's rights and equality. According to the 'We'll Stop Femicide' social platform, 335 women were killed through gender violence and hundreds assaulted by men in 2020, in Turkey.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
Tyrkneskar konur hafa mótmælt áformum stjórnvalda um að segja sig frá Istanbúlsáttmálanum en það hefur komið fyrir ekki Mynd: epa
Tyrkland hefur sagt sig frá Istanbúlsáttmálanum; fyrsta, bindandi alþjóðasáttmála sem gerður hefur verið með það að markmiðið að draga úr kynbundnu ofbeldi. Er þetta gert samkvæmt tilskipun Receps Tayyips Erdogans, Tyrklandsforseta, í samræmi við yfirlýstan vilja flokks hans, Réttlætis- og þróunarflokksins.

Fyrstir til að fullgilda sáttmálann

Tyrkir voru á sínum tíma fyrstir þjóða til að fullgilda sáttmálann, sem lagður var fram í Istanbúl 11. maí 2011. Í honum er meðal annars tekið á nauðgunum og kynferðisofbeldi inna jafnt sem utan hjónabands, kynfæralimlestingu, mansali, ofsóknum gegn hinsegin fólki, heimilisofbeldi og fjölmörgum, kynbundnum ofbeldisverkum öðrum.

Segja sáttmálann grafa undan fjölskyldueiningu

Hægrimenn á Tyrklandsþingi, með þingmenn Réttlætis- og þróunarflokksins í fararbroddi, segja samninginn grafa undan  fjölskyldueiningu, hvetja til skilnaðar og að hinseginsamfélagið misnoti ákvæði hans um kynjajafnrétti til að reka áróður fyrir sínum málstað. Stjórnarandstaðan gagnrýnir ákvörðunina.

Verið að samþykkja dráp á konum

Gokce Gokcen, varaformaður tyrkneska Repúblikanaflokksins og talsmaður hans í mannréttindamálum, skrifar á Twitter að með þessu séu stjórnvöld að leggja blessun sína yfir að „konur verði áfram annars flokks borgarar og að dráp á þeim fái að viðgangast."

Heimilisofbeldi og konumorð eru landlægt og viðvarandi vandamál í Tyrklandi. Um 300 konur voru myrtar í Tyrklandi í fyrra, samkvæmt kvenréttindasamtökunum „Við munum stöðva konumorð."