Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telur ýmsu ósvarað um litakóðunarkerfið

20.03.2021 - 16:53
Mynd:  / 
Magnús Gottfreðsson, læknir og prófessor í smitsjúkdómum, setur spurningamerki við ýmislegt tengt litakóðunarkerfinu sem taka á upp á landamærunum 1. maí. Samkvæmt kerfinu verða mis strangar reglur í gildi um komufarþega eftir því hver staða faraldursins er í því landi sem þeir koma frá. Tilkynnt var í vikunni að slíkt kerfi myndi taka gildi 1. maí.

Rætt var við Magnús í Vikulokunum á Rás 1 í dag. Þar sagði hann að með kerfinu væri verið að leggja að jöfnu tíma í sóttkví og tímann sem líði frá því að fyrra skimunarpróf er tekið í heimalandi ferðamanns og þar til hann fari í próf við komuna hingað til lands. „Við vitum að það er ekki hægt að gera það. Við vitum að sóttkví hefur ákveðnar takmarkanir í för með sér og okkur er öllum uppálagt á þessum tíma sem að líður á milli fyrri og seinni sýnatöku; að gæta að sóttvörnum, vera ekki að blandast öðru fólki, vera ekki á ferð og flugi og allt það. Þarna er verið að skauta algjörlega fram hjá því og það kann vel að vera að fólk fái einhverjar ráðleggingar um að haga sér þannig. Við vitum líka jafnvel að það mun ekki gera það.“

Aðferðafræðin er því of götótt að mati Magnúsar og gengur ekki upp. „Það þarf að hugsa betur hvernig þetta verður útfært,“ segir hann. Erfitt geti reynst að fylgjast með ferðum fólks og eins sé vitað að staðan sé misjöfn innan ríkja. „Þú getur verið á grænu svæði innan tiltekins lands og farið á rautt svæði. Þannig að þarna eru svo mörg álitaefni.“

Litur ríkis er ákvarðaður út frá nýgengi smita síðustu tvær vikur og segir Magnús að upplýsingarnar komi því eftir á. Honum hugnast aftur á móti vel að fólk sem geti sýnt fram á bólusetningarvottorð eða vottorð um mótefni fái að koma án hindrana til landsins. Hann nefnir sem dæmi að margir hafi verið bólusettir í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Hægt er að hlusta á þetta brot úr þættinum í spilaranum hér fyrir ofan.