Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Páll segir gosið ræfilslegt

Mynd: RÚV / RÚV
Páll Einarsson, jarðeðlisprófessor, segir gosið ekki hafa komið á óvart, þjóðin hafi staðið á öndinni í þrjár vikur og fimmtán mánuðir síðan að fyrsta hrinan hófst. Þetta sagði hann í viðtali við fréttastofu RÚV í Sjónvarpinu.

„Það sem benti til að gos gæti verið í spilunum að þessu fylgdi kvikugangur, hann virðist hafa hrundið af stað þessari skjálftahrinu í febrúar.“ Kvikugangurinn hafi verið að troðast þarna inn og fylgst hafi verið með hverju skrefi. Það sé nýlunda að fást við jarðskjálfta og kvikuganginn í einu.

Hann segir að gosið sé í miðju kvikugangsins. Hann segir gosið mjög lítið, sprungan sé stutt og gosvirknin ekki áköf. Gosórói hafi verið mjög lítil. Páll segir þetta svipa til gossins á Fimmvörðuhálsi. Hann útilokar ekki að gosið geti hreinlega klárast í nótt en það sé líka einn möguleik að það færist í aukana. „Þetta er svona dæmigert um byrjun á litlu gosi.“

Páll segir að hægt sé að stroka eina sviðsmynd út, að kvikustreymið myndi hætta og lognast út. Því nú hafi ein sviðsmyndin ræst; það sé hafið gos. Og það er kannski rétt að kalla það sínu nafni; Geldingadalsgos.

Páll er í löngu viðtali í sjónvarpinu að ræða um gosið. Hann segir Geldingadalinn vera besta staðinn á Reykjanesskaga fyrir pent hraungos. Hann segir ekki voðalega mikið gas koma út en gasmengun verði ekki mikil. „Það er þó betra að hafa allan varann á,“ segir Páll.

Páll segir tvo hraunstrauma vera í gangi, aðalstraumurinn fari niður í Geldingadal sem taki við talsverðu hrauni. Hinn straumurinn stefnir til suðurs og gæti átt það til að ná lengra og fara niður í Nátthaga og Nátthagakrika. Vísindamenn virðast sammála um að þetta gos sé ekki merkilegt og Páll notar orðið ræfilslegt um það