Fantasíur eru góð leið til að halda þér við efnið

Mynd: Shutterstock / Shutterstock

Fantasíur eru góð leið til að halda þér við efnið

20.03.2021 - 09:00

Höfundar

Fantasíur, eða kynferðislegar fantasíur, kallast sá hluti ímyndunaraflsins sem snýr að kynferðislegum hugsunum. Fantasíur geta verið hugsanir um eitthvað sem við höfum gert, langar að gera eða hreinlega finnst spennandi að ímynda okkur.

Það fallega við fantasíur er að við þurfum ekki að framkvæma þær frekar en við viljum. Þær geta hjálpað okkur að kanna hvað það er sem kveikir í okkur og það er enginn sem segir okkur hvað við megum eða megum ekki fantasera um.

Sigríður Dögg, eða Sigga Dögg eins og hún er alltaf kölluð, lýsir því hvernig fantasíur geta verið annars vegar meðvitaðar, þar sem við ákveðum að ímynda okkur eitthvað ákveðið þegar við stundum sjálfsfróun eða kynlíf með annarri manneskju, og hins vegar ómeðvitaðar, þar sem við leyfum ímyndunaraflinu að leika lausum hala og sjáum hvert hugurinn leitar. „Fantasían er góð æfing til að beisla hugann til að halda þér við efnið.“ Sigga Dögg lýsir því hvernig fantasíur geta verið hugleiðsluæfing og þaggað niður í truflandi hugsunum sem koma upp í kynlífi. Fantasíur geti haldið fólki í stuði og keyrt það upp.

Fantasíur geta verið sóttar í raunveruleikann, um fólk sem við þekkjum eða fólk sem við höfum aldrei hitt, fólk sem okkur langar ekki að vera með. Þá getum við fantaserað um fólk sem er ekki til, til dæmis ofurhetjur úr sjónvarpsefni eða ævintýraverur. Hugurinn fær frjálst sögusvið, að sögn Siggu Daggar og það geti verið skemmtileg leið að leyfa huganum að upplifa hluti sem við viljum ekkert endilega prófa í raunveruleikanum.

Indíana Rós Ægisdóttir og Mikael Emil Kaaber fengu Siggu Dögg kynfræðing til sín og ræddu um fantasíur í Klukkan sex. Þátturinn er aðgengilegur á UngRÚV.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.