Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Exit 2: ekki bara fleiri bílar, typpi og kókaínlínur

Mynd: Exit / NRK

Exit 2: ekki bara fleiri bílar, typpi og kókaínlínur

20.03.2021 - 09:00

Höfundar

Þökk sé nýju sjónarhorni veitir önnur sería Exit áhorfendum óhugnanlega og raunsæja innsýn í reynsluheim kvenna sem búa við andlegt og líkamlegt ofbeldi, segir Katrín Guðmundsdóttir sjónvarpsrýnir.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Þeir eru mættir aftur. Norsku útrásarvíkingarnir sem hneyksluðu Íslendinga svo eftirminnilega í fyrra hafa yfirtekið spilara RÚV á nýjan leik með annarri seríu um saurlifnaðinn sem þrífst í þessu sjúka en þó svo spennandi samfélagi nágranna okkar í austri. Rétt eins og fyrri þáttaröðin byggðist á raunverulegum frásögnum nýríkra manna úr viðskiptalífinu í Noregi sækir sú síðari efnivið sinn í sambærileg viðtöl. Í þetta skipti er úrval viðmælenda þó aðeins fjölbreyttara þar sem nokkrar konur sem átt hafa á samböndum við þessa menn hafa nú fengið sama vettvang til að segja sína sögu. Og það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að sjónarhorn þeirra er talsvert frábrugðið upplifun mannanna.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég sá að það væri komin ný sería af Útrás hugsaði ég strax með mér hvað í ósköpunum hún gæti sýnt sem ekki væri búið að ota framan í okkur í þeirri fyrstu. Mér fannst eins og ég væri búin að sjá allar kókaínlínurnar, alla bílana og öll typpin en þessi ákvörðun höfunda um að veita eiginkonum og kærustum fjórmenninganna einhvers konar vald yfir frásögninni kveikti aftur á móti áhuga minn jafn fljótt og ég hafði afskrifað þættina.

Þráðurinn er tekinn upp stuttu eftir að skilið var við hópinn síðast. Hermine er gengin sjö mánuði á leið með sitt fyrsta barn og þó hún hafi vissulega verið aðalpersóna áður er hún greinilega orðin söguhetja núna. Þannig er heilmiklu púðri eytt í að mynda tengsl á milli Mine og áhorfenda strax í upphafi þegar hún missir fóstrið vegna áreitni af hálfu hennar fyrrverandi. Þetta eru dýpri tilfinningaleg tengsl en þættirnir hafa áður gefið áhorfendum kost á að mynda við persónur þáttanna og eðlilega hefur það áhrif á hvernig við upplifum þá. Móðurhlutverkið var það eina sem Mine átti eftir, eftir að hafa verið misþyrmt líkamlega, andlega, veraldlega og félagslega af manninum sem hún elskaði, og hann tók það frá henni líka. Við viljum hefnd og treystum á að söguhetjan fullnægi réttlætinu.

Viðleitni höfunda til að veita frásögninni kvenlægt sjónarhorn er auðsæ þó svo að það yfirtaki hana aldrei alveg. Til þess að jafna hlut kynjanna er brugðið á það ráð að sleppa viðtölunum við mennina sem var skeytt saman við atburðarásina í fyrri þáttaröðinni og gæddi hana ákveðnum heimildarmyndabrag. Þess í stað er löngum og flóknum einræðum um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun bætt inn á forsendum kvennanna sem verður til þess að þættirnir minna fremur á ránsmynd (heist). Þetta er áhætta sem borgar sig og gefur nýrri þáttaröð gildi sem er að miklu leyti óháð verðleikum fyrri þáttaraðar.

Þrátt fyrir að enginn skortur sé á kókaínlínum, bílum og typpum eru hugmyndir um eðli og hlutverk hjónabands og fjölskyldu í forgrunni frásagnarinnar. Hér er vert að nefna gagnkynhneigð viðmið höfunda sem taka eflaust mið af félagsskapnum sem persónurnar byggjast á. Þáttunum er augljóslega ætlað að varpa ljósi á staðlaða afstöðu kynjanna til þessara frumstofnana samfélagsins og afhjúpa mismunandi upplifun þeirra á þeim.

Mennirnir tala ítrekað um hjónabandið sem skiptidíl. Þeir skaffa konunum íburðarmikinn lífsstíl og viðburðaríkt félagslíf á meðan þær sjá til þess að þeir haldi ákveðinni ímynd út á við, til að mynda með útliti sínu, heimili og börnum. Þær eru akkeri. Ef konurnar brjóta dílinn og rjúfa ímyndina eða ögra henni á einhvern hátt er þeim hent út á götu eða refsað á annan máta. Grundvöllur sambandanna er alfarið veraldlegur en ekki andlegur eða tilfinningalegur, enda eiga peningarnir og valdið sem fylgir þeim hug og hjörtu mannanna allra. Það er dálítið eins og peningarnir séu ástin í lífi þeirra en konurnar vinnan, það er að segja leiðinlegir viðskiptasamningar sem þarf að meðhöndla til að halda floti. Þannig er Henrik meira annt um vald sitt þegar hann skilur við konuna sína til þess að Mine geti ekki fjárkúgað hann og það sama á við um Adam sem tekur hefndarhug Mine ekki alvarlega fyrr en hún fer að blanda sér inn í viðskiptahætti hans og gróða.

Sjálfsmynd kvennanna er svo aftur á móti háð viðhorfi mannanna til hjónabandsins og hlutverks þeirra innan þess. Þær eru beittar þrýstingi um að gefa upp starfsframa sinn svo þær geti einbeitt sér að fjölskyldulífinu og útlitinu. Þegar þeim er svo sagt að hypja sig átta þær sig skyndilega á því að þær eru allslausar. Framfærslan er stöðvuð, húsin eru séreign og allt félagslífið er í nafni eiginmannanna. Meira að segja börnin eru tekin af þeim. Svo skilyrtar eru konurnar af áliti annarra að þær telja virði sitt háð aldrinum og ef mér skjátlast ekki er fjörutíu ára aldurinn nefndur að minnsta kosti þrisvar sinnum gegnumgangandi seríuna alla sem síðasti söludagur þeirra.

Atburðarásinni er stillt upp þannig að áhorfendur eiga von á femínískri bombu undir lok þáttaraðarinnar. Konurnar reykja jónu, leggja á ráðin og mæta óboðnar í grímupartí uppáklæddar sem íkonísk hættukvendi til að bjóða mönnunum byrginn. En það kemur aldrei nein bomba og ég er ekki viss um að aðgerðir kvennanna séu sérlega feminískar. Alla vega ekki í þeim skilningi sem poppkúltúr leggur í hann. Tomine vill fá Henrik aftur heim, Celine vill fá forræði yfir börnunum sínum og söguhetjan okkar, Hermine, vill bara losna við geðsjúka eltihrellinn Adam úr lífi sínu fyrir fullt og allt. Óháð því hvort konurnar ljúka ætlunarverki sínu eru það fjórmenningarnir sem enda kvöldið dansandi uppi á svölum.

Ég myndi samt alls ekki segja að þáttaröðin hafi valdið mér vonbrigðum. Þökk sé sjónarhorni Hermine veitir hún áhorfendum óhugnanlega og raunsæja innsýn í reynsluheim kvenna sem búa við andlegt og líkamlegt ofbeldi, óháð því hvort mennirnir þeirra eru efnaðir eða ekki. Hefnd er ekki endilega alltaf sæt. Hún getur líka verið súr og kvenkyns söguhetjur geta alveg fullnægt réttlætinu án þess að ganga berserksgang eins og brúðurin í Kill Bill. Og mig grunar að það hafi verið uppistaðan í viðtölunum við konurnar sem þættirnir sóttu efniviðinn í. Eftir sem áður er þetta karlaheimur og við konurnar lifum bara í honum.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Hefndarför og hórarí nýríkra Norðmanna

Innlent

Norsku útrásarvíkingarnir reyndust frekir á fóðrum

Sjónvarp

Vonaði að persónurnar myndu allar deyja