Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Almannavarnir og Veðurstofan boða upplýsingafund kl. 2

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Almannavarnir og Veðurstofa Íslands halda sameiginlegan upplýsingafund í skrifstofum Almannavarna klukkan tvö í dag vegna eldgossins í Fagradalsfjalli. Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að almannavarnastig hafi verið hækkað upp á neyðarstig og vegna gossins og samhæfingarstöð Almannavarna og aðgerðastjórn á Suðurnesjum verið virkjaðar.

Þar kemur einnig fram að tilkynningar hafi borist frá viðbragðsaðilum um illa búið fólk á gangi í átt að gosstöðvunum fljótlega eftir að af því fréttist. Enginn heppilegur útsýnisstaður er á svæðinu umhverfis gosstöðvarnar og biðja Almannavarnir fólk að halda sig fjarri.

Erfitt yfirferðar og hætta á gassöfnun í dældum

Minnt er á að svæðið er afar erfitt yfirferðar og líka varhugavert vegna loftmengunar frá gosinu. Hætta getur skapast fyrir fólk vegna gassöfnunar í lægðum í landslagi nærri gosstöðvunum.

Af öryggisástæðum er drónaflug bannað yfir gossvæðinu til hádegis og vegna vísindaflugs gæti þurft að loka fyrir hvort tveggja flugumferð og drónaflug yfir umbrotasvæðinu með stuttum fyrirvara næstu daga.

Búast má við gasmengun í Þorlákshöfn og nágrenni í nótt og er fólk þar beðið að halda sig inni og loka gluggum. Verið er að meta stöðuna og mæla magn brennisteinstvíoxíðs í gasinu sem leggur frá gosstöðvunum.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV