Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veiran er í veldisvexti í Þýskalandi

19.03.2021 - 15:36
epa09076656 German Health Minister Jens Spahn leaves after a press conference about AstraZeneca vaccine in Berlin, Germany, 15 March 2021. Germany joined some European nations in suspending the AstraZeneca vaccine amid reports of a possible adverse side effect. Both the World Health Organization (WHO) and the European Medicines Agency (EMA) said that there is no evidence linking the reported effects to the vaccine, and advised the countries to continue their vaccination efforts.  EPA-EFE/FILIP SINGER
Jens Spahn heilbrigðisráðherra. Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi segja engar líkur á að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum fyrir páska. Að þeirra sögn er fjölgun COVID-19 tilfella greinilega í veldisvexti um þessar mundir.

Jens Spahn heilbrigðisráðherra sagði á vikulegum fundi með fréttamönnum í dag að bólusetning við COVID-19 gengi svo hægt að hún dygði ekki til að halda aftur af fjölgun smita. Því væri útlit fyrir að herða þyrfti sóttvarnaaðgerðir á næstunni frekar en að draga úr þeim.

Það er hið bráðsmitandi B117 afbrigði kórónuveirunnar sem veldur Þjóðverjum erfiðleikum um þessar mundir. Þess varð fyrst vart í Bretlandi.

Jens Sphan sagði á blaðamannafundinum að til greina kæmi að semja við Rússa um bóluefni þeirra, Sputnik V, ef Evrópusambandið getur ekki útvegað aðrar gerðir bóluefna hraðar en nú er. Þótt allt gengi samkvæmt áætlun yrði samt ekki hægt að ljúka við að bólusetja áhættuhópa fyrr en að nokkrum vikum liðnum. 

Angela Merkel kanslari ræðir á mánudaginn kemur við leiðtoga sambandsríkjanna sextán um hvort sóttvarnaaðgerðir verði hertar á næstu dögum vegna versnandi stöðu í baráttunni við veiruna. Robert Koch-smitsjúkdómastofnunin ráðleggur Þjóðverjum að vera ekki á ferðinni um páska og draga þannig úr útbreiðslu veirunnar.